Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Pólitíkin kitlar ekki lengur
Fimmtudagur 18. janúar 2007 kl. 17:06

Pólitíkin kitlar ekki lengur

-Drífa Sigfúsdóttir stjórnar HSS, hvílir sig á meistaranámi á meðan en gefur sér tíma til að lesa bækur og leika við barnabörnin.

„Jú, þakka þér fyrir, ég segi allt gott og gengur vel að takast á við starfið sem er mest því að þakka hvað ég er með frábært starfsfólk í kringum mig,“ svaraði Drífa Sigfúsdóttir þegar blaðamaður hringdi í hana í byrjun vikunnar og spurði út í nýja starfið. Drífa tók við stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í október síðastliðnum, tímabundið til eins árs af Sigríði Snæbjörnsdóttur sem nú er við störf á Malaví.

Vitaskuld er margt í gangi hjá svo stórri stofnun sem HSS er. Á haustdögum  var undirritaður tæplega 80 milljón króna samningar við heilbrigðisráðuneytið um lokafrágang D-álmu. Meðal annars er verið er að innrétta tvær skurðstofur svo eitthvað sé nefnt. „Framkvæmdir ganga mjög vel og húsnæðið er að mestu leyti tilbúið. Í febrúar verður vætanlega útboð á því  sem snýr að innréttunum og innviðum skurðstofanna, það eru næstu skrefin, svona fyrir utan það að reyna sækja meiri peninga. Að undirbúa og vinna það er snar þáttur í starfinu,“ segir Drífa. Hún segir þjónustuna hafa farið batnandi og ekki skorti metnað innan HSS til að bæta hana. Það kostar jú alltaf peninga og eins og allir vita þá eru þeir oft á tíðum naumt skammtaðir.


Mannekla hefur lengi hrjáð heilbrigðiskerfið og HSS hefur ekki verið undanskilið hvað það varðar. Aðspurð segir Drífa ástandið ekki svo slæmt að hún þurfi sjálf að standa vaktirnar, hún láti fagfólkið sjá um heilbrigðisþáttinn en standi sjálf vaktirnar um fjármálin. Á sjúkrahúsin vantar jú alltaf fólk, peninga og tæki.


„Sem betur fer hefur HSS í gengum árin átt velunnara í formi félagasamtaka og annarra aðila sem hafa oft komið færandi hendi með ýmsan tækjabúnað. Hins vegar er það svo að þróunin er afar ör og tækjabúnaður úreldist jafnvel á örfáum árum þannig að endurnýjun þarf að vera nokkuð regluleg svo við drögumst ekki aftur úr. Helst eru það sneiðmyndatæki sem vantar núna,“ svarar Drífa þegar hún er spurð út það hvað sé efst á óskalistanum varðandi tækjamálin.


Drífa hefur um tíma verið í meistaranámi í mannauðsstjórnun en vegna starfa sinna á HSS ætlar hún að leggja það í salt á meðan. „Ég fór í viðskiptafræði og var búin að skrá mig í meistraranámið þegar hlutirnir atvikuðust þannig að ég réði mig til starfa hjá fjármálafyrirtæki. Eftir ákveðinn tíma gerði ég hins vegar upp hug minn og ákvað að klára námið sem mig langaði í,“ útskýrir Drífa. Hún var búin að ljúka öllum kúrsum og var að byrja á lokaverkefninu þegar hún réðist til HSS þannig að lokaverkefnið verður að bíða á meðan hún stendur vaktina í fjarveru Sigríðar Snæbjörnsdóttur.
Drífa var sem kunnugt er mjög áberandi í pólitík á árum áður. Kitlar það ekkert að fara aftur á þann vettvang ? „Ég held að það sé búið að kitla mig nóg þar,“ svarar hún hlæjandi. „Ég held að þetta hafi bara verið orðið gott.“


En þú fylgist með?
„Ég fylgist lauslega með, skulum við segja. Það verður að viðurkennast að ég stend mig ekkert alltof vel í því að fylgjast með á þessu sviði. Ég var kannski búin að taka svolítið stóran skammt.“
Aðspurð um líf eftir vinnu segir Drífa lestur skipa ríkulegan sess í því samhengi. Á náttborðinu þessa dagana segist hún vera með spennusögu eftir Arnald Indriðason en annars sé hún nokkurnveginn „alæta“ á bækur. Annars er aðal áhugamálið og tómstundagamanið  um þessar mundir fólgið í því að leika við  barnabörnin tvö sem eru sitthvoru megin við eins árs aldurinn. „Ömmuhlutverkið er ný reynsla fyrir mig þannig að ég er mjög hugfangin af því. Enda er þetta líka ósköp skemmilegt;  gaman að sjá þau vaxa að hvað það gerist margt í lífi lítilla kríla.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024