Plötuspilarar uppseldir
Söluaðilar gapandi hissa á vinsældunum.
Svo virðist sem vínylplötuspilarar séu afar vinsæl jólagjöf í ár. Víkurfréttir fengu fregnir af því að plötuspilarar hafi selst upp fyrir þónokkru síðan í versluninni Omnis í Reykjanesbæ. Þar á bæ var fréttamanni tjáð að spilararnir hefðu einnig selst upp í útibúum verslunarinnar í Borgarnesi og á Akranesi. Einnig sé búið að lofa sýningareintökum og sending sem kemur í árslok sé upppöntuð.
Vinsælustu plötuspilaranir eru einnig með geisladiskadrifi og usb tengi, sem eykur líklega vinsældirnar og notagildið. Svo er útlitið líka skemmtilega gamaldags.
Væntanlegir plötuspilaraeigendur dusta væntanlega kátir af vínylplötusafninu og rifja upp gamla slagara um hátíðirnar.