Pizzan best grilluð
„Það mætti orða það þannig að ég er duglegur á sumrin á grillinu og síðan á ég það til að taka tarnir við eldavélina öðru hverju. Ég er kallaður til þegar kemur að því að matreiða „a la“ Halli réttina,“ segir Haraldur Axel Einarsson sem er matgæðingur Víkurfrétta þessa vikuna.
Haraldur segist ekki verja neitt gríðarlegum tíma í eldhúsinu heldur séu svalirnar frekar hans eldús. Þar er hann duglegur á grillinu og oftar en ekki eru það pizza, kjöt og hamborgarar sem fá að ilja sér þar.
Haraldur ætlar að deila skemmtilegri uppskrift með lesendum en hann ætlar að fræða okkur um hvernig grilla skuli pizzu.
„Pizzan hefur verið í miklu uppáhaldi síðan ég fékk pizza-steininn frá tengdaforeldrunum hérna um árið. Hún þarf helst að vera með öllu sem ég kem á hana, en ég hef verið að létta aðeins á henni með því að minnka kjötáleggið og auka við hollustuna, t.d. bæta við þessu græna, er ekki krafa um það í nútímasamfélagi?
Byrjað er að hita steininn meðan pizzan er græjuð innandyra. Steinninn þarf að vera funheitur. Smelli pizzunni á steininnn og þetta tekur innan við 10 mínútur að grillast. Þú færð'ana ekki betri en grillaða (Weberaða). Hægt að næla sér í grillstein í Húsasmiðjunni, þeir selja Weber grillvörur,“ segir Haraldur að lokum.
Hér kemur svo uppskriftin:
Botninn:
Speltbotn frá Ebbu (http://pureebba.com/)
250 gr spelt (má blanda fín- og grófmöluðu saman)
3 tsk vínsteinslyftiduft
Ca 1 tsk oregano
1/2 tsk sjávarsalt
2 msk ólívuolía
130-140 ml heitt vatn
Sósan:
2-3 hvítlauksgeirar
maldon sjávarsalt eftir smekk
ólívuolía
Áleggið:
skinka
paprika
sveppir
rauðlaukur
piparostur
pizzaostur
furuhnetur
fetaostur
beikon
toscana skinka
klettasalat
spínat