Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

PiKap og Eydís leika í Duus-húsum
Miðvikudagur 20. júní 2007 kl. 17:07

PiKap og Eydís leika í Duus-húsum

Tékkneski strengjakvartettinn PiKap frumflytur nýjan kvintett eftir Eirík Árna Sigtryggsson ásamt Eydísi Franzdóttur óbóleikara á tónleikum í Bíósal Duushúsa, miðvikudagskvöldið 27. júní kl. 20.00.  Aðgangur er ókeypis.

PiKap strengjakvartettinn hefur haldið fjölda tónleika víða um Evrópu og fengið mikil lof gagnrýnenda fyrir einstaklega vandaðan og tilfinningaríkan flutningi.  Kvartettinn er skipaður fiðluleikurunum Martin Kaplan og Lenku Simandlovu, lágfiðluleikaranum Miljo Milev og sellóleikaranum Petr Pitra sem öll eru mjög virk í tónlistarlífi Vestur -Tékklands bæði í kammermúsík og hljómsveitarleik.  Auk þess að spila saman sem kvartett hafa þau öll að Martin Kaplan undanskyldum verið hljóðfæraleikarar við sinfóníuhljómsveitina í Karlovy Vary (Karlsbað).  Martin er konsertmeistari við óperuhljómsveitina í Pilzen.  Samstarf kvartettsins við Eydísi Franzdóttur óbóleikara hófst árið 2004 er hún skipulagði ferna tónleika þeirra 
hérlendis þar sem þau hlutu einstakar viðtökur áheyrenda.  
Sumarið 2005 buðu þau henni að vera gestur þeirra á þrennum tónleikum í Tékklandi.


Auk frumflutnings á verki Eiríks Árna mun PiKap kvartettinn gefa landsmönnum innsýn inn í tónlist heimalands síns með flutningi á strengjakvartettum eftir tékknesku tónskáldin Dvorak og Ryba. 
Þeir eiga það ekki einungis sameginlegt að vera meðal fremstu tónskálda Tékka heldur voru báðir heillaðir af þjóðlagatónlist þjóðar sinnar og notuðu hana óspart sem efnivið í verk sín.  Þjóðlagatónlistin á mjög djúðar rætur í tékknesku þjóðinni og hvar sem tveir Tékkar koma saman eru sungin þjóðlög og þar ríkir mikil gleði. Leikin verður Dvorak strengjakvartett í E-dúr, op. 80 og Ryba strengjakvartet í d- moll, en að auki ein skærasta perla Mozarts, kvartett fyrir óbó og strengi í F-dúr.

Nánar um flytjendur:

Martin Kaplan – fyrsti fiðluleikari
Nam fiðluleik í tónlistarskólanum í Karlovy Vary og síðar í tónlistarháskólanum í Pilzen undir handleiðslu prof. Jindriška Holotová og lauk lokaprófi þaðan 1987. Í framhaldi af því stundaði Martin Kaplan frekara nám í fiðluleik við tónlistarakademíuna í Prag hjá prof. Ivan Štraus ásamt því að sækja námskeið hjá Boris Belkin í Siena á Ítalíu. Árið 1994 var Martin ráðinn sem kennari við tónlistarháskólann í Pilsen og 1998 sem konsertmeistari við óperuhljómsveitina í sömu borg.  Auk þess að starfa við klassískan fiðluleik er Martin Kaplan virkur í þjóðlagatónlist, en þjóðlagatónlistin á sér mjög sterka hefð í Tékklandi.

Lenka Simandlová – annar fiðluleikari
Er komin af tónlistarfjölskyldu í Karlovy Vary.  Eins og Martin hóf hún tónlistarnám við tónlistarskólann í Karlovy Vary og nam síðar við tónlistarháskólann í Pilsen undir handleiðslu prof. Miloš Machácek og útskrifaðist þaðan árið 1985.  Í báðum þessum skólum hlaut Lenka fjölda viðurkenninga.  Að námi loknu var hún ráðinn sem fiðluleikari við sinfóníuhljómsveitina í Karlovy Vary, þar sem hún gegnir nú stöðu leiðara annarrar fiðlu.  Lenka hefur einnig verið virk í þjóðlagatónlist.

Miljo Milev – lágfiðluleikari
Nam lágfiðluleik við tónlistarháskólann í Pilzen hjá prof. Jan Motlík, en var að því loknu, árið 1984, ráðinn sem lágfiðluleikari við óperuhljómsveitina í Pilsen.  Frá 1986 hefur Miljo verið lágfiðluleikari við sinfóníuhljómsveitina í Karlovy Vary.  Auk hljómsveitarleiks hefur hann verið virkur í kammertónlist og leikið með kammerhljómsveitum.  Miljo hefur einnig mikinn áhuga á þjóðlagatónlist frá ýmsim löndum, en auk lágfiðlunnar leikur hann á tékkneska sekkjapípu.

Petr Pitra – sellóleikari
Nam sellóleik við tónlistarháskólann í Teplice hjá prof. Daniel Veis og síðar við tónlistar akademíuna í Brno.  Árið 1989 var hann ráðinn sem sellóleikari við sinfóníuhlómsveitina  í Karlovy Vary, þar sem hann gengdi stöðu leiðara sellódeildarinnar.  Petr kemur reglulega fram sem einleikari með hljómsveitinni og hefur m.a. flutt einleikskonserta eftir Vivaldi, Boccerini, Haydn og Dvorák auk tvöfalda konsert Brahms og þerfalda konsert Beethovens.  Hann er meðlimur fjölda kammerhópa og flytur tónlist allt frá barokktónlist til djasstónlistar.  Vegna áhuga síns á eldri tónlist hefur Petr skipulagt tónlistarhátíðir í Karlovy Vary þar sem engöngu er flutt gömul tónlist.  Auk sellóleiks þykir hann vera framúrskarandi kennari, en nemendur hans 
hafa vakið athygli í tónlistarkeppnum bæði heima og erlendis.  
Petr er nú yfirkennari yfir öllum tónlistarskólum Tékklands.

Eydís Franzdóttir - óbóleikari
lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1987  og stundaði framhaldsnám í London.  Hún lék um skeið með samevrópsku hljómsveitinni  Acadya,  en var svo ráðin 1. óbóleikari tékknesku útvarps-hljómsveitarinnar í Pilzen þar sem hún lék um tveggja ára skeið.  Eydís hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og á Íslandi.  Hún er m.a. meðlimur í Caput-hópnum og skipuleggjandi og óbóleikari Poulenc-hópsins. Sumarið 2005 bauð kvartettinn Eydísi Franzdóttur óbóleikara að vera gestur þeirra á þrennum tónleikum í Tékklandi. Kvintett Eiríks Árna var skrifaður fyrir Eydísi árið 2005.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024