Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

PEZ-karlar í tugavís til Sandgerðis
Mánudagur 30. desember 2013 kl. 12:53

PEZ-karlar í tugavís til Sandgerðis

Ungur drengur í Sandgerði tapaði PEZ-kallasafni sínu sem hafði verið pakkað ofan í kassa. Safnið var orðið stórt eftir áralanga söfnun. Systir drengsins, Kristín Margrét Ingibjargardóttir, ákvað að nota netið til að setja af stað söfnun á PEZ-köllum. Söfnunin er heldur betur að skila árangri ef marka má færslur við aðstoðarbeiðni systurinnar á vefnum bland.is. PEZ-kallar í tugavís eru nú á leiðinni til Sandgerðis. Einn segist vera með yfir 70 kalla til að gefa á meðan annar er með 48. Margir virðast vera að gramsa í gömlum dótakössum til að grafa upp PEZ-kalla og þar eru að finnast kallar sem eru jafnvel 10-15 ára gamlir. Engu máli skiptir hvernig PEZ-kallarnir eru, bara að þeir séu PEZ-kallar.

Forsaga málsins er að 10 ára drengur í Sandgerði, greindur með einhverfu, ADHD, ADD og tourette, hefur safnað PEZ-köllum um árabil. Í stað þess að fá nammi á laugardögum hefur hann valið sér PEZ-kall og þannig byrjaði safnið að verða til. Eftir að eldur kom upp á heimilinu fyrir ári síðan var safninu pakkað niður vegna flutninga í annað hús. Á Þorláksmessu var verið að gera herbergi drengsins klárt og þá átti m.a. að setja upp PEZ-safnið. Þá kom hins vegar í ljós að safnið hafði glatast í flutningunum.

Kristín Margrét segir erfitt að útskýra fyrir 10 ára einhverfum strák að safnið hans hafi horfið. Það hafi líka fylgt því mikill grátur þegar ljóst var að safnið væri týnt.

Nú er því biðlað til allra sem luma á nýjum eða gömlum PEZ-köllum að póstleggja þá á heimilisfangið Holtsgötu 6, 245 Sandgerði og gleðja þar ungan mann sem ætlar sér að koma upp myndarlegu safni á nýjan leik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024