Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Pestó kjúklingur og grasker
Mánudagur 26. nóvember 2012 kl. 09:19

Pestó kjúklingur og grasker

Guðrún Skagfjörð Sigurðardóttir er stödd í Elhúsinu hjá Víkurfréttum að þessu sinni. Hún ætlar að deila einfaldri og skemmtilegri uppskrift með lesendum en hún hefur ákaflega gaman af því að elda.
„Ég myndi segja að ég væri dugleg að taka til hendinni í eldhúsinu. Þegar ég vinn á kvöldin eldar maðurinn minn yfirleitt pylsur sem börnin eru ekki hrifin af,“ segir Guðrún létt í bragði. Oftast eldar Guðrún fisk eða kjúkling en hún er ekki mikið fyrir að borða kjöt. „Ég hef mjög gaman af því að elda mat og fer reglulega með afganginn í vinnuna og leyfi Gísla vinnufélaganum mínum að smakka,“ en Guðrún vinnur í íþróttahúsinu við Heiðarskóla. Það er frábær vinnustaður að sögn Guðrúnar en henni finnst afar gaman að vera í kringum börn. Guðrún er gift Þórhalli Garðarssyni og saman eiga þau þrjú börn. Elsta stelpan er farin að heiman en þær mæðgur voru duglegar að elda saman. Eftir eru þó tveir drengir á heimilinu sem eru duglegir að hjálpa Guðrúnu í eldhúsinu, bæði við eldamennskuna og að ganga frá. Helstu áhugamál Guðrúnar eru íþróttir og útivera en hún hefur stundað Metabolic af krafti undanfarið og segir hún það vera hreint frábæra líkamsrækt.

Uppskriftin:
500-1000 g kjúklingalundir eða bringur. Einnig er hægt að notast við fisk.
2 krukkur rautt pestó
1 dós sýrður rjómi
1/2 krukka fetaostur


„Kjúklingurinn/fiskurinn settur í eldfast form, blanda saman rauðu pestói, sýrða rjómanum og fetaostinum. Sett yfir kjúklinginn og hitað í ofni við 180°C í 30 mínútur. Með réttinum hef ég yfirleitt blöndu af sætum kartöflum, venjulegum kartöflum og graskeri sem ég sker í bita og set olíu yfir, hita svo í ofni í um 30 mínútur. Svo er ómissandi að hafa ferskt salat með. Í það set ég spínat, lambhaga salat, papriku, gúrku, avokadó og hnetur. Gott er að setja fetaost yfir það líka en það eru ekki allir sem kjósa það.“ Vinsæll eftirréttur á heimili Guðrúnar er svo kókósís sem hún þekur með kókosbollum og ber fram með ferskum bláberjum og jarðarberjum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024