Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Persónulegri þjónusta í heimabænum
Dalrós Jóhannsdóttir.
Laugardagur 22. nóvember 2014 kl. 09:00

Persónulegri þjónusta í heimabænum

Annar eigenda Skóbúðarinnar hvetur fólk til að skoða það sem er í boði í verslunum.

Dalrós Jóhannsdóttir, annar eigenda Skóbúðarinnar í Reykjanesbæ, hefur trú á því að íbúar á svæðinu geti í sameiningu skapað stemninguna á Hafnargötusvæðinu eins og hún var í gamla daga. Allt sem þurfi sé að skoða betur vöruúrvalið og þjónustuna sem séu vel samkeppnishæf.



„Auðvitað vonumst við til þess að fólk hugsi aðeins til okkar hér á Hafnargötunni og ákveði að versla heima það sem er hægt. Við skiljum alveg að það er ekki allt í boði hérna. Eftir því sem fólk kaupir meira heima þá verður eykst vöruúrvalið. Þetta helst allt í hendur. Fólk þarf eflaust að sækja eitthvað til höfuðborgarsvæðisins en ég hvet það til að byrja hér og skoða hvað er til,“ segir Dalrós Jóhannsdóttir, annar eigandi Skóbúðarinnar í Reykjanesbæ. Dalrósu finnst margar verslanir í Reykjanesbæ vera með rjómann af því besta. „Ég man eftir því þegar ég var að kaupa fermingarföt fyrir dóttur mína og við vorum búnar að fara á milli verslana í Smáralind. Svo enduðum við með því að fá dressið á hana hér í heimabænum. Byrjuðum í raun í vitlausum enda. Vöruúrvalið sem við skoðuðum í verslununum í Smáralind var bara komið saman í einni búð hér. Ég fór eitt sinn á vefsíðu ELKO til að athuga verðsamanburð á örbylgjuofnum og sá nákvæmlega eins ofn í Ormsson hér á sama verði.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Flestir enda á að velja svörtu skóna
Dalrós segir að mikið til komi sama fólkið til hennar og kaupi. Margir sem komi og vilji bara fá eitthvað visst vörumerki. „Þeir þekkja vöruna og finnst hún góð; vörur sem hafa reynst vel. Núna höfum líka verið að taka inn nýtt fyrir herrana, líka þessa yngri, með breiðari línu. Erum komin með gæjalegri skó sem höfða til annarra en þessir hefbundnu. Erum líka með mjög flotta og litríka herrasokka á góðu verði og mikið úrval af skóm sem passa fyrir allar árstíðir.“ Svo sé skemmtilegt að skór í skærum og áberandi litum veki athygli í hillunum og séu mikið skoðaðir. „En svo enda kúnnarnir með því að kaupa alveg eins skó, bara svarta,“ segir Dalrós og hlær. Eðlilega leggi flestir áherslu á hagkvæmni og nýtingu og svart sé sígildur litur. „Lakkskórnir eru svo aðeins að koma inn aftur. Kósísokka/skór eru einnig vinsælir frá stærðum 30 og upp í 41.“



Verslanir vel samkeppnishæfar
Skóbúðin hefur ekki mikla samkeppni þótt einhverjar tískuvöruverslanir á svæðinu selji skó. „Við erum með fjölbreytt úrval á alla fjölskylduna og þessar grunnvörur, þ.e. kuldaskó, stígvél og inniskó. En samkeppni er þó af hinu góða og getur hjálpað til. Það skiptir miklu máli að veita persónulega þjónustu og geta pantað inn í ef að vantar og slíkt og jafnvel hringja í fólk þegar beðið er eftir vissum vörum,“ segir Dalrós og bætir við að stundum gleymist hvað sé í boði hér. „Verslanirnar eru alveg samkeppnishæfar og bæjarfélagið er stórt. Þetta er bara spurning um að við íhugum öll hvaða þjónustu við viljum hafa í bænum okkar. Við verðum öll að leggjast á eitt og þannig getur skapast skemmtilega stemningin á Hafnargötusvæðinu eins og í gamla daga.“

VF/Olga Björt