Passað vel upp á jólatréð
Reynir Brynjólfsson, Vogum Vatnsleysuströnd var einn sjö systkina og segir að ein af hefðunum í gamla daga hefði verið heitt súkkulaði og smákökur á jólunum. Hér rifjar hann upp jólin í gamla daga.
„Það er nú farið að fenna í sporin. Við vorum sjö systkinin. Foreldrar mínir voru Margrét Þórarinsdóttir og Brynjólfur Brynjólfsson, Ég er í miðjunni og fæddist árið 1934 á Hellum á Vatnsleysuströnd. Við flytjum yfir götuna, gömlu Reykjanesbrautina, að Minna Knarrarnesi, þegar ég er sex ára gamall. Það var gervi jólatré heima hjá okkur með lifandi kertum en kertin voru fest á greinarnar með sérstökum kertaspennum. Það yfirgaf engin jólatréð á meðan það var logandi á því, þá var passað vel upp á það. Við vorum með fleiri hesta, kýr, kindur og hænsni í Knarrarnesi. Faðir minn gerði út trillu en þá voru trillur á hverjum einasta bæ meðfram ströndinni. Það vantaði aldrei mat, alltaf nóg að borða. Faðir minn vann þau verk sem til féllu. Hann vann við rafmagnslínuna gömlu sem lá til Keflavíkur og einnig við höfnina í Vogum en hér er góð smábátahöfn. Móðir mín var húsmóðir framan af en fór svo að vinna í frystihúsi seinna.“
Jólin voru mikil hátíð
„Auðvitað var alltaf farið í bað fyrir jólin en annars var ekki farið eins oft í bað þá, eins og fólk gerir í dag. Heima hjá okkur var lítið baðherbergi í Knarrarnesi, klósett og sturta kom seinna en fyrst var notast við kamar utandyra. Húsið var kynt með kolum og heita vatnið hitað í miðstöðvarkatli sem var sérstakur kútur. Það var alltaf hangikjöt á aðfangadag og jóladag. Mamma gaf okkur alltaf heitt súkkulaði og smákökur á jólum en hún bakaði hálfmána og gyðingakökur, vanilluhringi, jólakökur með rúsínum og marmarakökur. Svo fengum við einnig pönnukökur um jól. Þetta var svo mikil hátíð. Manni fannst jólin vera í marga daga því þá voru margir frídagar í einu. Maður átti matrósaföt og systur mínar fengu fína kjóla en þær voru í kjólum alla daga því þá þekktist ekki að kvenfólk færi í buxur.“
Rafmagnið breytti miklu
„Þegar rafmagnið kom í Knarrarnesi og jólatréð var skreytt með rafmagnsjólaseríu þá urðu jólin afslappaðri því þá þurfti ekki að vakta tréð lengur. Við vorum með aladdínlampa einnig sem lýsti mjög vel en það voru þessir lampar kallaðir. Við fórum alltaf í kirkju á jóladag, Kálfatjarnarkirkju. Þá fórum við saman, systkinin og mamma, og gengum meðfram sjónum og yfir tún hjá mönnum til að komast í kirkjuna. Maður fékk engar gjafir þannig nema frá foreldrum okkar. Það voru mest prjónaðir sokkar eða vettlingar, kerti og spilastokk en ekkert brjálæði eins og í dag.“