Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Páskaviðtal VF: Fjögur börn á þremur árum
    Erla og Skúli með börnunum fjórum, Alexander 3 ára, Emmu og Lilju 3 mánaða, og Birtu 17 mánaða.
  • Páskaviðtal VF: Fjögur börn á þremur árum
    Það kom Skúla og Erlu skemmtilega á óvart að heyra að þau ættu von á tvíburum því þungun án aðstoðar tækninnar var talin nær útilokuð eftir veikindi Skúla á unglingsárum. Á myndinni eru tvíburasysturnar Emma og Lilja sem fæddust í desember síðastliðnum.
Sunnudagur 27. mars 2016 kl. 16:31

Páskaviðtal VF: Fjögur börn á þremur árum

Tóku nýfæddan dreng í fóstur árið 2013 og hafa eignast þrjár dætur síðan

Hjónin Erla Reynisdóttir og Skúli Björgvin Sigurðsson reyndu að eignast barn með ýmsum aðferðum frá árinu 2006 en það gekk ekki sem skyldi. Þau veltu því stundum fyrir sér hvort þau yrðu ef til vill aldrei foreldrar. Árið 2013 fengu þau nokkuð óvænt aðeins átta daga gamlan dreng í tímabundið fóstur. Það varð svo síðar varanlegt fóstur. Síðan þá hefur barnalánið leikið við þau, því þrjár dætur hafa bæst í hópinn.

Aðeins 16 ára gamall var Skúli greindur með krabbamein. Læknar tjáðu honum að eftir lyfjameðferðina yrði mögulegt að hann gæti ekki eignast börn vegna sterkra lyfjagjafa. Það varð því úr að sæði úr honum var fryst og geymt þar til hann yrði eldri. Skúli kveðst ekki hafa verið í neinum barneignahugleiðingum á þeim tíma og fannst þetta allt hálf skrítið. „Pabbi í raun tók öll völd þegar ég sagði þetta vera óþarfa og ég man þann dag mjög vel þegar við keyrðum saman í bæinn með einn skammt,“ segir hann og brosir. Svo leið tíminn og árið 2006 ákváðu Skúli og Erla að leita eftir aðstoð frá Art Medica til að eignast barn eftir að í ljós kom að „sundmennirnir“ væru fáir á ferli þó einhverjir vissulega væru. Þau fóru í nokkrar tæknifrjóvgunarmeðferðir sem gengu ekki eins og þau hafði dreymt um. „Við misstum fóstur á 9. viku og þar á eftir fáum við utanlegsfóstur. Hver meðferð var mikill rússíbani því stundum var þetta óljóst með niðurstöður og við tók meiri bið. Þetta reyndi alltaf mikið á,“ segir Erla. Eftir tæknifrjóvgunarmeðferð er biðin tvær vikur og er þá tekin blóðprufa sem gefur til kynna hvort niðurstaðan sé jákvæð eða neikvæð. Þau eru sammála um að það tímabil hafi alltaf verið erfitt. Árið 2011 ákváðu þau að taka hvíld frá barnapælingum og rækta sjálf sig. Áður höfðu þau skráð sig á lista til ættleiðingar á barni frá Kólumbíu. „Það voru góðar horfur með að ættleiða barn þaðan til að byrja með en svo fóru ótrúlegir hlutir að gerast í Kólumbíu sem töfðu það allt saman svo það varð ekki úr því hjá okkur,“ segir Skúli.



Fylltu upp í tómarúmið með ferðalögum

Á þeim árum þegar Erla og Skúli voru að reyna að eignast barn ferðuðust þau mikið. „Það var kannski okkar leið til að fylla upp í barnleysið og við heimsóttum marga framandi staði eins og Hawaii, Kína og svo Mexico,“ segir Erla. Þegar þau voru nýkomin heim úr ferð til Mexíkó í mars 2013 fengu þau svo símtal og var boðið að taka að sér sjö daga gamalt barn í tímabundið fóstur. Stuttu áður höfðu þau hafið það ferli að gerast fósturforeldrar. „Það var hringt í okkur um klukkan 16:00 þriðjudaginn 12. mars. Við mættum á fund næsta morgunn klukkan 10:00. Við vissum ekki einu sinni hvort um væri að ræða stúlku eða dreng. Á fundinum fengum við að heyra að þetta væri drengur og um bakgrunn hans. Okkur var svo boðið að hugsa málið í smá stund en sú ákvörðun var auðveld. Næsta skref var að koma við í barnavöruverslun og kaupa bílstól fyrir drenginn til að komast heim,“ segir Erla. „Og þetta var í raun fyrsta skiptið sem við komum inn í slíka búð,“ skýtur Skúli inn í.

Eignuðust barn með 20 klukkutíma fyrirvara

Hlutirnir gerðust hratt þennan dag í mars 2013. Þau lögðu af stað með drenginn heim í Njarðvík á hádegi. Á Reykjanesbrautinni hringdu þau í foreldra sína og nokkra vini og sögðu þeim fréttirnar. „Þegar við komum heim, hálftíma seinna, var búið að útvega okkur allt sem þarf þegar barn kemur í heiminn. Við fengum vöggu, stól, skiptiborð, bleyjur og föt. Við náum líkast til aldrei að þakka þessu góða fólki fyrir allt sem þau hafa gert fyrir okkur,“ segir Skúli. Þau hrósa enn þann dag í dag happi yfir því að hafa ekki verið nokkrum dögum lengur í Mexíkó því þá hefði þeim ef til vill ekki staðið til boða að taka drenginn að sér. Drengurinn fékk nafnið Alexander Emil og er hann nú sem fyrr segir í varanlegu fóstri. Þau voru himinlifandi yfir því að verða loks foreldrar og segjast hafa verið fullkomlega sátt með að eiga eitt barn. Í hálfgerðri rælni ákváðu þau að fara á Art Medica og prófa að fara í eina meðferð án þess að gera sér neinar vonir um að það myndi ganga betur en áður. Sú meðferð var tíunda tilraunin og tókst. Níu mánuðum síðar, þann 31. október 2014, fæddist dóttir þeirra, Birta. Erla segir að á þeim tíma þegar þau fóru í síðustu meðferðina hafi þau ekkert velt því fyrir sér hvernig það yrði að eiga tvö börn með aðeins 20 mánaða millibili.



Það var í nógu að snúast hjá Erlu og Skúla með krílin tvö. Þegar Birta varð sex mánaða ákváðu þau að fá í fyrsta sinn næturpössun fyrir börnin og eyða kvöldinu í góðra vinahópi. Þann sama morgun var Erlu flökurt og ákvað að taka þungunarpróf, svona til að geta útilokað þann möguleika að hún ætti von á barni. Erlu og Skúla til mikillar undrunar var niðurstaðan jákvæð, því eins og áður sagði, var talið nær útilokað að það væri hægt eftir veikindi Skúla á unglingsárunum. „Ég var að vinna þann morgun með vini mínum, Sigurði Stefánssyni, og hann sagði við mig að þetta væru kannski bara tvíburar og hló sínum einstaka hlátri. Hann var með þetta allt á hreinu frá upphafi,“ segir Skúli. Erla fór í snemmsónar til að fá staðfestingu frá lækni. „Ég spurði lækninn hvort þetta væri virkilega mögulegt. Hann sagði mér þá að ég væri ólétt en að það væru nú ekki einu fréttirnar. Hann þurfti ekki að segja meira því þá vissi ég að þetta væru tvíburar,“ segir Erla brosandi. Þann dag var Skúli staddur á Spáni að vinna og Erla hringdi í hann og bað hann að setjast niður á meðan hún sagði honum fréttirnar.

Lífið er eins og tómatsósa

Tvíburasysturnar Emma og Lilja fæddust svo 16. desember síðastliðinn eftir 33. vikna meðgöngu og dafna vel. Börnin fjögur fæddust því á innan við þremur árum. Skúli segir marga hafa sagt við þau eftir að þau eignuðust Alexander og svo Birtu að þetta væri nú ekki einsdæmi. „Það var eins og við manninn mælt. Einn góður maður líkti þessu við nýja flösku af tómatsósu. Það er alltaf erfitt að ná tómatsósu úr flöskunni og maður lemur og lemur á botninn og það gerist ekkert. Svo allt í einu kemur alveg hellingur.“ Það er líf og fjör á heimili fjölskyldunnar. Þau hafa góða rútínu á öllu og þannig gengur vel. Þau segja foreldra sína hafa verið mjög hjálpleg og oft bjargað málunum á stóra heimilinu. „Ömmur og afar eru mjög dugleg að koma í heimsókn og finnst yndislegt að gefa systrunum að drekka, leika við þau eldri og hjálpa við heimilisstörf,“ segir Erla. Skúli er flugvirki hjá Keili og skrifar íþróttafréttir fyrir Morgunblaðið. Á kvöldin þegar hann er að skrifa koma oftast foreldrar þeirra eða jafnvel góðir vinir og hjálpa við að elda kvöldmatinn og að koma börnunum í háttinn. Erla er tölvunarfræðingur hjá Icelandair og þegar þau verða bæði byrjuð að vinna aftur er stefnan sett á að finna au-pair til að hjálpa til með heimilið.

Skúli og Erla horfa björtum augum til framtíðar og eru þakklát fyrir að draumur þeirra um að eignast barn hafi ræst og vel það. „Á tímabili leit út fyrir að við yrðum bara tvö og það var ekki eitthvað sem við höfðum ímyndað okkur. Foreldrahlutverkið er mikil áskorun í dag en það verður yndislegt að fylgjast með systkinunum vaxa og dafna og leika sér saman í framtíðinni,“ segir Erla.



Viðtal og myndir: Dagný Hulda Erlendsdóttir // [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024