Páskaspjall: Pabbi býður í dýrindis páskamat
Fanný Axelsdóttir er mannauðs- og markaðsstýra Skólamatar. Hún svaraði nokkrum léttum páskaspurningum frá Víkurfréttum.
- Hvernig á að verja páskunum?
Í faðmi fjölskyldu og vina en börnin mín tvö eiga bæði afmæli um þetta leyti og það verður svaka afmæli.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
Ég gef börnunum og eiginmanninum eitt egg hvert og svo fæ ég vonandi eitt sjálf frá þeim.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
Ég á ekki von á að ferðast mikið um páskana en ég er nýkomin heim frá Tenerife þar sem ég var í dömuferð með móður minni og dóttur.
- Hvernig páskaegg færðu þér?
Freyju draum-egg er „drauma-eggið“, vonandi fæ ég það.
- Hvað er í páskamatinn, einhverjar hefðir þar?
Matur er mikið atriði í minni fjölskyldu og yfirleitt býður pabbi okkur fjölskyldunni í dýrindis páskamat, en að þessu sinni á sonur minn afmæli á páskasunnudag og því ætlum við að bjóða í páskamatinn í ár. Hvað verður á boðstólum er enn óákveðið en ætli afmælisbarnið fái ekki eitthvað að segja til um það.
- Eru páskaeggin falin á þínu heimili?
Páskaeggjaleit er árleg hefð á mínu heimili eftir að dóttir mín (7 ára) fór að hafa vit á því. Hún stjórnar leitinni með harðri hendi.