Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Páskaspjall: Laumaðist í eggið hjá syninum
Sunnudagur 8. apríl 2012 kl. 16:53

Páskaspjall: Laumaðist í eggið hjá syninum


Ragnheiður Elín Árnadóttir alþingismaður ætlar að verja páskunum í faðmi fjölskyldunnar. Hún svaraði nokkrum páskaspurningum Víkurfrétta.


- Hvernig á að verja páskunum?
„Í faðmi fjölskyldunnar og vonandi í hinum mestu rólegheitum. Þegar þetta er skrifað stefnum við á að nota góða veðrið sem við höfum pantað til vorverka í garðinum og útivistar af einhverju tagi“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Við hjónin höfum yfirleitt keypt okkur eitt lítið páskaegg saman og svo gefum við drengjunum okkar sitt hvort í stærri kantinum“.

- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Ég á ekki von á því þar sem tilhugsunin um notalega heimahelgi hljómar ótrúlega vel þessa stundina eftir atið í þinginu í síðustu viku… en þó er aldrei hægt að útiloka góðan bíltúr einhvern daginn yfir páskahelgina“.

- Hvernig páskaegg færðu þér?
„Ég hef alltaf verið Nóa Síríus megin í þessum efnum, en ég verð að viðurkenna að ég laumaðist í fyrra aðeins í lakkríseggið hjá syni mínum sem var að ég held frá Freyju. Það gæti því orðið svo að hefðir yrðu brotnar í þessum efnum núna um páskana!“

- Hvað er í páskamatinn, einhverjar hefðir þar?
„Ekki sterkar hefðir, en þó held ég að ég megi fullyrða að páskalambið hafi alltaf verið á sínum stað“.

- Eru páskaeggin falin á þínu heimili?
„Já, við höfum haldið þá skemmtilegu hefð með okkar börnum. Ég ólst ekki sjálf upp við þetta en hef ákaflega gaman af því að sjá eftirvæntinguna og keppnisskapið þegar leitin hefst“.