Páskaegg máluð og húsið skreytt með páskadóti
Elfa Hrund Guttormsdóttir, félagsráðgjafi hjá VIRK.
Á að ferðast eitthvað yfir páskahelgina? - Ef ekki, hvernig á að verja helginni?
Við fjölskyldan ætlum að taka því rólega yfir páskana þetta árið. Við fáum góða gesti til okkar í mat og skellum okkur kannski á skíði ef veður leyfir.
Áttu þér einhverjar hefðir sem tengjast páskunum?
Við blásum alltaf úr hænueggjum og málum þau og skreytum húsið með páskadóti sem við höfum eignast í gegnum tíðina. Krakkarnir hafa verið duglegir að föndra og ég held mikið upp á þau listaverk. Á páskadagsmorgun fara krakkarnir á stjá og leita að eggjunum sínum og það er mikil stemming sem fylgir því. Þegar öll eggin eru komin í leitirnar þá setjast allir við eldhúsborðið og borða eggin sín og þá er spáð og spekúlerað hvaða málshætti við fáum.
Hvað er borðað á þínu heimili á páskadag?
Á páskadagsmorgun eru egg og bacon á boðstólnum fyrir þá sem hafa lyst eftir súkkulaðiátið. Í kvöldmat er hefð hjá okkur að grilla páskalambið með öllu tilheyrandi.
Hvernig páskaegg ætlar þú að fá þér í ár?
Páskaeggið í ár er frá Nóa og Síríus og það er nr 3. Draumaeggið mitt er handgert egg frá Hafliða í Mosfellsbakaríi. Ég mun splæsa því á mig síðar.