Paradís í Hvassahrauni
- Hjónin Arndís Einarsdóttir og Róbert Kristjánsson hafa á 16 árum skapað sér paradís við sjávarsíðuna
„Hér ætlum við að bera beinin enda er þetta svæði okkar draumur,“ segir Arndís Helga Einarsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Róbert Kristjánsson, hlutu á dögunum viðurkenningu frá Sveitarfélaginu Vogum fyrir fallegan garð. Þau búa í útjaðri sveitarfélagsins, nánar tiltekið í Hvassahrauni, húsaþyrpingunni í Kúagerði, sjávarmegin með Reykjanesbrautina. Í umsögn dómnefndar segir að á lóðinni hafi tekist að skapa einstakt samspil á milli nýrra bygginga, gamalla garða og minja úr náttúrunni og að skemmtilegt flæði sé á milli lóðar við aðal húsið og sjávarhúss er stendur neðar.
Í gegnum tíðina hafa þau varið drjúgum tíma í garðinum sem er hinn glæsilegasti. Arndís segir hverfið í Hvassahrauni vera eins og sveit í borg. Það er skipulagt sem frístundasvæði og því sjá þau sjálf um að koma úrgangi á réttan stað og sækja póstinn sinn í Voga. Ekki er hægt að skrá lögheimili sitt þar í dag en þau skráðu sig þar áður en skipulagið gekk í gegn. Arndísi og Róbert hafði dreymt um að búa á afskekktum stað og leituðu víða um land að hentugri jörð. „Við vildum búa með dýrum og rækta okkar eigið grænmeti. Við erum með vísi að grænmetisrækt núna og erum búin að taka upp spínat og brokkolí í sumar,“ segir Arndís.
Hundurinn Monsa kúrir í skugganum.
Bjuggu í 15 fermetra bátaskýli
Jörðina í Hvassahrauni fengu Arndís og Róbert afhenta árið 2000. Þá var ekkert þar nema illa farið bátaskýli og hlaðnir garðar sem voru á kafi í sinu. Þau bjuggu í tjaldi á lóðinni yfir sumarið og settu niður nokkur tré og gerðu bátaskýlið upp. Síðar fluttu þau í bátaskýlið sem er aðeins 15 fermetrar að stærð. „Við settum allt okkar hafurtask í geymslu og bjuggum í bátaskýlinu í tvö ár, tvö með hund og kött. Það var yndislegur tími og mjög rómantískur,“ segir Arndís. Nú er bátaskýlið gestahús og Arndís og Róbert fluttu svo í fallegt hús sem þau byggðu á jörðinni.
Arndís segir bílaniðinn frá Reykjanesbrautinni ekki heyrast inni í húsið nema þegar vindurinn blæs af veginum. „Annars heyrum við bara í sjónum og fuglunum.“ Mikið dýralíf er á svæðinu og stundum fylgjast þau með hvölum og selum út um stofugluggann. Stutt frá eru svo hestar og nautgripir í girðingu.
Fólk hendir rusli á víðavangi
Þrátt fyrir að svæðið sé paradís líkast er þó ekki allt sem sýnist því að mikið er um að fólk keyri þangað og losi sig við rusl í gjótur í hrauninu, íbúum skiljanlega til mikils ama. „Við erum búin að hirða upp hér rafmagnsgeyma, þvottavélar, ýmis önnur heimilistæki, skrifborðsstóla og fleira. Síðast í gær fundum við poka fulla af skóm og lampaskermum,“ segir Arndís.
Halda upp á gamla tímann
Fyrir mörgum tugum ára var verbúð í Hvassahrauni og eru þar víða hlaðnir veggir sem teljast til fornminja. Arndís og Róbert hafa svo hlaðið fleiri veggi svo garðurinn þeirra fellur vel að umhverfinu við sjóinn. Þau halda mikið upp á fornminjarnar og gamla tímann. Þar sem jörðin er við sjóinn er töluverð áskorun að rækta þar fallegan garð. Arndís setti sig því í samband við Auði Ingibjörgu Ottesen, ritstjóra tímaritsins Sumarhúsið & garðurinn. Hún hafði gefið út rit um gróður við sjávarsíðuna sem Arndís studdist mikið við. „Ég hélt dagbók yfir allar plöntur sem við gróðursettum. Á þeim tíma var töluvert af rollum á svæðinu og þær átu flestar plönturnar. Ég gafst því á að skrifa niður.“ Rollurnar er ekki lengur á svæðinu og að sögn Arndísar hefur gróðurinn tekið vel við sér eftir að þær fóru.