Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Papas með foropnun á laugardaginn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 20. september 2024 kl. 10:21

Papas með foropnun á laugardaginn

Karl Örvarsson treður upp eftir tónleika Mugison

„Við lítum á þetta sem ákveðna foropnun á Grindavík, við trúum því að bærinn muni opna fljótlega og þá verður hann fljótur að byrja blómstra á ný. Það er frábært að Mugison sé að koma halda tónleika á laugardaginn í kirkjunni, við ætlum að bjóða upp á stuð á eftir og mun Kalli Örvars m.a. troða upp og tekur vonandi nokkra vini sína með sér. Við opnum kl. 12 og vonum að allir sem ætla á tónleikana kíki við hjá okkur fyrst og fái sér gott í kroppinn,“ segir Þormar Ómarsson, annar eigenda Papas pizza í Grindavík en staðurinn opnar kl. 12 á laugardaginn og verður opinn fram á kvöld.

Þormar hefur trú á að lokunarpóstar verði aflagðir fljótlega og bærinn opni fyrir almenning.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta hefur reynt á og við höfum haft lokað í allt sumar, það var ekki grundvöllur fyrir að halda úti rekstri á meðan enginn mátti koma inn í bæinn. Nú er hins vegar allt komið á fullt í viðgerðum á götum og innviðum og ég trúi því að þegar allar flóttaleiðir út úr bænum verða orðnar greiðfærar, að þá muni yfirvöld hætta með lokunarpóstana og opna bæinn. Eftir það mun Grindavík ná vopnum sínum á ný, um það er ég sannfærður.

Þegar við fréttum að Mugison myndi halda sínu til streitu varðandi tónleika í Grindavíkurkirkju, settum við allt á fullt og munum opna kl. 12 á laugardaginn. Enski boltinn verður á skjánum og vonandi munu allir sem eru að fara á tónleikana, koma við hjá okkur fyrst og seðja hungrið.

Þegar tónleikarnir hjá Mugison verða búnir ætlum við að halda áfram með stuðið á Papas og höfum fengið grínistann og söngfuglinn Karl Örvarsson til að koma og skemmta. Kalli stendur í samningaviðræðum við aðra listamenn um að koma með sér og er gaman að sjá hug hans og annarra varðandi Grindavík, það vilja allir leggjast á eitt svo Grindavík fari að blómstra á ný,“ sagði Þormar.

Kalli Örvars er bæði þekktur sem söngvari og lagahöfundur en er kannski þekktastur fyrir að vera eftirherma, t.d. er varla hægt að sjá eða heyra hvor tali, hann eða Kári Stefánsson.

„Ég er búinn að kynnast Grindvíkingum sem eru einkar skemmtilegur þjóðflokkur, mér hefur alltaf þótt gaman að skemmta í Grindavík og var meira en til í að koma á laugardaginn og taka þátt í þessari foropnun eins og Papas-bræðurnir kalla þetta. Það er aldrei að vita nema ég taki einhverja vini mína með mér en hvort þeir mæti í eigin persónu eða í minni sköpun kemur bara í ljós,“ sagði Kalli að lokum.