Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Pálmi ekki lengur leiður á að spila vinsælustu lögin
Þriðjudagur 3. september 2024 kl. 18:04

Pálmi ekki lengur leiður á að spila vinsælustu lögin

Fimmtug Mannakorn spila í Hljómahöll á Ljósanótt

„Ég er kominn yfir það að vera orðinn leiður á að syngja okkar vinsælustu lög, í dag nýt ég mín í botn að syngja Reyndu aftur og ég tel mig syngja lagið betur í dag en áður,“ segir söngvarinn og bassaleikarinn Pálmi Gunnarsson sem er einn meðlima Mannakorna, sem munu halda tónleika í Hljómahöllinni föstudagskvöldið 6. september.

Pálmi var ekki gamall austur á fjörðum, n.t. á Vopnafirði, þegar sýnt þótti hvaða leið hann myndi arka á lífsleiðinni.

„Ég var ekki gamall þegar ég eignaðist harmonikku og svo eignaðist ég gítar, stofnaði bítlahljómsveit og lék á böllum í sveitinni. Ég gerði mér líklega ekki grein fyrir því á þessum tíma en þarna hefst ferillinn má segja. Ég fór svo í héraðsskólann á Laugum í Reykjadal þar sem við stofnuðum hljómsveit og eftir það spilaði ég í bítlaböndum á Seyðisfirði og Hornafirði. Ég þurfti að grípa í bassann af og til sem hefur verið mitt hljóðfæri síðan þá, bassinn heillaði mig alltaf. Eftir nokkur ár í ballharki fyrir austan fór hugurinn að leita suður á bóginn og ég sótti um starf í hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar sem lék mörg kvöld í viku á Röðli, fékk starfið eftir að Magnús keypti undir mig flugfar til að ég gæti mætt í prufu. Ég átti margt eftir ólært en Magnús sá eitthvað í mér og ég fékk djobbið. Þetta var frábær skóli, við þurftum að spila allt milli himins og jarðar og í þessu var ég næstu árin og öðlaðist mikla og góða reynslu. Eftir það var ég í hinum og þessum hljómsveitum, t.d. Mánum frá Selfossi og ´73 fékk ég hlutverk Júdasar í Jesus Christ Superstar, þar verð ég kannski fyrst eitthvað þekktur. Þessi uppfærsla tókst mjög vel, höfundarnir mættu á forsýninguna og sýningin gekk fyrir fullu húsi í nokkra mánuði. Það var gaman að taka þátt í þessu og ég kynntist Baldri Má Arngrímssyni sem lék hlutverk í sýningunni. Hann dró mig á æfingu með félögum sínum, m.a. Magnúsi Eiríkssyni og þarna verður Mannakorn til. Við vorum að spila á böllum eins og allar hljómsveitir gerðu á þessum tíma, spiluðum líka talsvert á blúskvöldum. Svo vorum við beðnir að koma í sjónvarpssal og taka nokkrar rokkábreiður en spurðum hvort við mættum frekar spila eigin lög, en þá var Magnús farinn að mæta með eigin tónsmíðar og texta á æfingar. Það var samþykkt og við myndvæddum nokkur lög, trúlega með fyrstu tónlistarmyndböndum sem gerð hafa verið. Fyrsta platan okkar kom út árið 1974 og hér erum við enn, 50 árum síðar og erum hvergi nærri hættir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Reyndur aftur

Segja má að Pálmi og Maggi séu eins og fóstbræður, þeir hafa meira og minna alltaf unnið saman undir merkjum Mannakorna þótt einhver hliðarverkefni hafi sprottið inn á milli. Ellen Kristjánsdóttir hefur verið órjúfanlegur partur af hljómsveitinni en hinir og þessir tónlistarmenn hafa komið að upptökum á plötum sveitarinnar í gegnum tíðina. Á tónleikunum í Hljómahöllinni munu synir Magnúsar, Stefán á gítar og Magnús á trommur, auk hljómborðsleikarans Þóris Úlfarssonar, fylla bandið. Lagalistinn verður þverskurður af því besta frá þessum 50 árum og Pálmi er löngu hættur að vera leiður á að syngja heitustu smellina.

„Þegar ákveðnum aldri og þroska var náð, fór mér að þykja vænt um lögin og ferilinn. Þetta snýst ekki um hvað mér finnst gaman að syngja, þetta snýst um áhorfandann sem kaupir sér miða til að heyra sín uppáhalds lög. Það var þægileg tilfinning að átta sig á þessu og í dag nýt ég mín í botn að syngja Reyndu aftur t.d. og ég tel mig syngja lagið betur í dag. Þegar ég var yngri gat maður orðið leiður á að syngja alltaf sömu lögin, frægast líklegast þegar Brunaliðið gerði Ég er á leiðinni að óraunverulegum smelli eitt sumarið. Við þurftum að spila lagið margoft á hverju balli, ég gæti trúað að skiptin hafi stundum komist upp í tveggja stafa tölu! Auðvitað var maður orðinn nett leiður á laginu en ég elska að syngja þetta lag í dag, flott lag og erfitt í flutningi, en ég syng það ennþá í sömu tóntegund ef það segir eitthvað. Ég hef ekki þurft að lækka tóntegundir og það er trúlega því að þakka að ég held mér við, er í góðu formi og mun halda áfram að koma fram á meðan ég hef gaman af því og tel mig hafa eitthvað fram að færa. Það eru nokkur ár síðan við í Mannakornum gáfum út plötu en það kæmi mér ekki á óvart ef við ættum ekki eina eftir. Við hlökkum mikið til að koma í Hljómahöll, miðasalan gengur vel en hún fer fram á tix.is,“ sagði Pálmi að lokum.

Caption

Pálmi er jafnvígur á rafmagns-...

... og kontrabassa.

Fyrsta sjónvarpsupptakan af Pálma.

Aðalleikararnir í Jesus Christ Superstar, ásamt höfundunum lengst til hægri.