Páll Óskar treður upp í Stapanum
Ljósanæturball verður í Stapanum annað kvöld þar sem Páll Óskar tryllir lýðinn eins og honum einum er lagið ásamt fleiri skemmtikröftum. Óli Geir Jónsson hefur veg og vanda að ballinu sem hann segir löngu orðið tímabært í Reykjanesbæ. „Ljósanæturballið er komið til að vera. Það hefur vantað stórviðburð í skemmtanahaldið eftir að dagskrá lýkur í miðbænum og þetta er svarið við því, enda löngu tímabært að fá loksins alvöru ball.“
Hann segir Ljósanæturballið vera ætlað öllum þeim sem langar að lyfta sér upp á Ljósanótt og að fjölbreytileikinn verði við völd alla nóttina. „Það eru engin kynslóðabil þegar Páll Óskar er annars vegar. Flottustu artistar landsins verða þarna ásamt flottum dj'um í hliðarsalnum líka, þetta er fyrir alla sem eru með aldur til þess að fara inná skemmtistað.“ Meðal skemmtikrafta sem koma fram eru Haffi Haff og MC Gauti ásamt fleirum.
Óli Geir segir undirtektirnar hafa verið gríðalegar og það stefni allt í frábært ball í Stapanum. Hann hefur engar áhyggjur af því að húsið rúmi ekki allt fólkið sem ætlar sér á ballið. „Stapinn er stór og þetta verður í tveimur sölum, þetta verður viðburður sem engin gleymir í bráð.“
Er þetta ekki ágætis verkefni að setja saman svona stórt ball?
„Jú heldur betur. Það liggur mikil vinna á bakvið eitt svona ball, en þessi vinna er bara svo skemmtileg viðfangsefni og það er ekkert betra en þegar svo viðburðir eru liðnir að horfa aftur þegar allt gengur upp og sjá hvað það var þess virði að eyða mikilli vinnu í skipulag, það er nauðsynlegt til að kvöldið verði sem glæsilegast.“
Óli segist ætla að færa stemminguna sem myndast alltaf á Nasa á böllunum hans Páls Óskars hingað heim en þau böll hafa verið virkilega vinsæl og færri komist að en vilja. Hann vonast til að sjá sem flesta á ballinu og að Suðurnesjamenn sem og aðrir láti ekki þennan stórviðburð framhjá sér fara.