Páll Óskar og Monika með friðartónleika í Útskálakirkju
Páll Óskar Hjálmtýsson og Monika Abendroth troðfylltu Útskálakirkju í Garði í gærkvöldi á sérstökum friðartónleikum. Það var góð vinkona Páls Óskars úr Garðinum, Kristín Júlla Kristjánsdóttir, sem stóð fyrir tónleikunum.
Um 150 manns komu í Útskálakirkju í gærkvöldi en á meðal tónleikagesta var öll bæjarstjórnin í Garði, sem sólarhring áður hafði tekist á á sjóðandi heitum bæjarstjórnarfundi þar sem tekist var á um hitamál í bæjarfélaginu.
Páll Óskar og Monika voru hins vegar á allt öðrum nótum í gærkvöldi. Páll Óskar var á rólegum nótum undir hörpuleik Moniku. Tónleikagestir voru mjög sáttir og klöppuðu þeim lof í lófa.
Á Facebook hefur einnig komið fram mikil ánægja með þetta framtak Kristínar að fá tónlistarfólkið í bæinn og er lagt til að tónleikar með þeim verði gerðir að árlegum viðburði héðan í frá.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi, ljósmyndari Víkurfrétta, á tónleikunum í Útskálakirkju í gærkvöldi.
Útskálakirkja var þétt setin og meira að segja voru gestir á kórloftinu.
Monika Abendroth, Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Páll Óskar Hjálmtýsson fyrir tónleikana í Útskálakirkju í gærkvöldi. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson