Páll Óskar leynigestur hjá Ástvaldi og félögum
Páll Óskar Hjálmtýsson gerði mikla lukku hjá fötluðum á Suðurnesjum um helgina en hann var leynigestur á „Ástvaldarballinu“ sem haldið var í Oddfellowsalnum á laugardag. Ballið fékk reyndar nýtt nafn í ár og kallaðist „Ég er eins og ég er“ sem er vísun í eitt af lögum Páls Óskars.
Ástvaldur Ragnar Bjarnason átti hugmyndina að ballinu sem haldið var í fyrsta skipti fyrir síðustu jól en honum innan handar voru þeir Örlygur Örlygsson og Eiður Eyjólfsson.
Boðið var upp á pizzur og gos og voru allir vel mettir þegar Páll Óskar kom á svið og gerði stormandi lukku.
Helstu styrktaraðilar skemmtunarinnar eru Ungó, Hljómahöll, Ölgerðin, Nettó og Oddfellow. Ballið er fyrir fatlaða einstaklinga á Suðurnesjum og voru allir velkomnir. Meðfylgjandi mynd var tekin á skemmtuninni. Fleiri myndir í Víkurfréttum á fimmtudaginn.