Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 13. maí 1999 kl. 10:53

PÁLL KETILSSON SKRIFAR:

LEIÐARI að loknum kosningum Reykjanesbraut og ráðherra Þá er enn einum kosningum lokið með tilheyrandi sigrum og ósigrum. Úrslitin í Reykjaneskjördæmi eru mikill sigur fyrir sjálfstæðismenn og varnarsigur fyrir Hjálmar Árnason og Framsókn. Samfylkingin náði ekki markmiðum sínum. Ef mið er tekið af málflutningi flokkanna þá hljóta skilboð kjósenda hér á Suðurnesjum að vera einföld; tvöföldun Reykjanesbrautarinnar, takk fyrir. Forsætisráðherra sagði rétt fyrir kosningar á fundi í Stapa styðja sína menn í því málefni á næsta kjörtímabili og taldi það nauðsynlegt eins og þeir, að flýta málinu. Hjálmar Árnason og Kristján Pálsson eru þungavigtarmenn í sínum flokkum og voru báðir áberandi á síðasta kjörtímabili. Þeir fengu kosningu í takt við það. Þeir áttu báðir þátt í því að tryggja lýsingu á Reykjanesbrautina sem var stór áfangi og nauðsynlegur. Næsta verkefni er tvöföldun brautarinnar. Það er að flestra mati forgangsverkefni og þarf að klárast á mun skemmri tíma en gert var ráð fyrir. Annað sem Suðurnesjamenn telja tímabært er að kjördæmið fái ráðherra. Miðað við kosninguna sem sjálfstæðismenn fengu má telja líklegt að Árni Mathiesen setjist í ráðherrastól. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að það gerist. Miðað við varnarsigur Hjálmars er ekki talið ólíklegt að hann verði ráðherraefni framsóknar og það þó hann sé ekki oddviti flokksins í kjördæminu. Formaður flokksins sagði á flokksþingi fyrr í vetur að það væri ekki skilyrði fyrir því að verða ráðherra að vera í 1. sæti flokksins. Ef framsóknarmenn vilja bæta í seglin og fylgið á þessu svæði þá væri þetta sterkur leikur hjá þeim. Þeir hafa átt undir högg að sækja í Reykjavík-Reykjanesi en náðu þó að halda tveimur mönnum í kjördæminu. Þar vógu atkvæði á Suðurnesjum þungt. Ráðherra úr Reykjanesi gæti hjálpað framsókn í að styrkja stöðu sína sem hlýtur að vera flokknum kappsmál. Kosningarnar geta varla verið uppörvandi fyrir Samfylkinguna. Af einhverjum ástæðum náði hún aldrei flugi fyrir þessar kosningar. Erfitt er að finna ástæður þess. Vissulega er ekki auðvelt að keppa við ríkisstjórn sem hefur haldið vel á málum. Alla vega var málefnaflutningur Samfylkingarinnar sem kom fyrir augu Suðurnesjamanna þannig að hann hreif ekki. Hluti af honum var að setja út á störf andstæðinganna í stað þess að mæta með nýjar og betri hugmyndir. Það hrífur sjaldan eins og úrslitin sýndu. Páll Ketilsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024