Paddy's fagnar með Suðurnesjarokki
Vagga rokksins á svæðinu
Liðin eru 10 ár síðan skemmtistaðurinn Paddy's opnaði við Hafnargötu 38. Paddy's tók ungu, metnaðarfullu tónlistarfólki sem vildi rokka opnum örmum. Margar hljómsveitir hafa stígið sín fyrstu skref opinberlega á Paddy's og í gegnum árin hefur staðurinn verið vagga rokksins á Suðurnesjum.
Helgina 4. - 6. apríl munu eigendur, fastagestir og velunnarar fagna þessum áfanga með flestum af þeim hljómsveitum, sem Paddy's kýs að kalla kalla „böndin sín.“ Þó nokkur bönd sem höfðu lagt upp laupana, hafa ákveðið að stilla saman sína strengi af þessu tilefni og bjóða upp á goðsagnarkennda endurkomu.
Meðal þeirra má nefna: Tommygun Preachers, Tokyo Megaplex, Mystery Boy, Koja og Killer Bunny. Allar spiluðu þær á tónleikaröðunum Aftan Rokk og tónlistarhátíðinni Rockville sem voru haldnar reglulega á Paddy's á árunum frá 2003 - 2011.
Paddy's hlaut menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrirækjasúluna árið 2010 fyrir eflingu tónlistarlífs í Reykjanesbæ með því að skapa ungu tónlistarfólki tækifæri til flutnings tónlistar. Frá stofnun Paddy's hefur verið lagt áherslu á lifandi tónlist og hefur staðurinn, ásamt ýmsum ráðgjöfum skipulagt tónleika og aðra menningarviðburði. Þetta hefur verið unnið af hugsjón, áhuga og ástríðu til listarinnar og ætlar staðurinn að sýna þessa helgi að ekkert lát er á rokkinu þar á bæ.
Einungis hljómsveitir sem skipa meðlimi af Suðurnesjum koma fram um afmælishelgina og ásamt ofantöldum hljómsveitum má nefna hljómsveitirnar :Valdimar, Oddur, Hellvar, Æla, Medúsa, Klaus, The Mystery Boyband ásamt Mystery Boy og The Big Band Theory.
Mikil spenna hefur legið í loftinu við undirbúning á helginni og er mikil eftivænting að sjá þessar hljómsveitir stíga á stokk aftur. Þessar hljómsveitir sem sköpuðu og eiga sannan heiður að stemmningunni sem myndaði Paddy’s á þessum upphafsárum. Komdu og upplifðu þá stemmningu.
Hér má sjá dagskrá helgarinnar.
Æla á Paddy's. Sveitt stemning.
Hljómsveitin Koja í sundi.
Aftan Rokk.
Að ofan má sjá Tommygun Preachers og hljómsveitina Valdimar.