„Paddy's er heimavöllur okkar“
- Hljómsveitin Föruneytið frá Sandgerði spilar á bryggjuballinu
Föruneytið er hljómsveit frá Sandgerði sem skipar þá Hlyn Þór Valsson, söngur og gítar, Ólaf Þór Ólafsson, gítar og söngur, Pálmar Guðmundsson, bassi og Ólaf Ingólfsson, trommur.
Föruneytið hefur verið að spila saman í fimmtán ár og það er alltaf nóg að gera.
Þetta byrjaði allt saman haustið 2004 þegar Hlynur Þór og Óli Þór byrjuðu að spila saman og syngja sem Hobbitarnir, nafn sem þeir nota ennþá þegar þeir koma tveir fram. Það leið ekki á löngu þar til bassaleikarinn Pálmar og trommarinn Óli bættust í hópinn og fékk hópurinn heitið Föruneytið. Á þessum þrettán árum hafa þeir spilað við alls konar tilefni en þó mest á Suðurnesjum þegar fólk kemur saman til að skemmta sér, allt frá litlum veislum í heimahúsum til stærstu árshátíða.
„Það er alveg nóg að gera hjá okkur þessa dagana og við munum meðal annars spila á bryggjuballinu á Ljósanótt og ætlum einnig að taka lagið á Paddy´s á laugardagskvöldinu eftir flugeldasýninguna, sem er heimavöllur Föruneytisins,“ segir Óli Þór.
Síðan má einnig geta þess að Föruneytið hefur tengingar um öll Suðurnesin, Hlynur er Keflvíkingur sem býr í Sandgerði, Ólafur Þór er Sandgerðingur sem býr í Sandgerði, Pálmar er Sandgerðingur sem býr í Keflavík og Ólafur Ingólfs er Njarðvíkingur sem býr í Höfnum.
Bryggjuballið verður á föstudagskvöldið kl 19:30 við smábátahöfnina, þar sem Föruneytið kemur fram ásamt öðrum vel völdum listamönnum.