Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Óvættir og aðrar vættir
Föstudagur 23. september 2011 kl. 15:05

Óvættir og aðrar vættir


Í Bíósal Duushúsa stendur nú yfir sýningin Óvættir og aðrar vættir. Um er að ræða samnorrænt verkefni sem Listasafn Reykjanesbæjar tók þátt í s.l. vetur ásamt Haugesund Billedgalleri í Noregi og Dalarnas Museum í Svíþjóð. Á sýningunni má sjá tæplega 60 grafíkverk unnin af unglingum frá Íslandi, Noregi og Svíþjóð út frá þjóðsagnaarfi landanna. Íslensku verkin eru öll eftir nemendur úr Myllubakkaskóla og voru þau unnin upp úr þjóðsögunni um Rauðhöfða undir stjórn Sigríðar Ásdísar Guðmundsdóttur myndmenntarkennara, með dyggri aðstoð Elvu Hreiðarsdóttur, formanns félagsins Íslensk grafík sem hafði milligöngu um verkefnið.  Hvert verk var þrykkt í fjórum eintökum. Þrjú þeirra eru nú til sýnis samtímis í löndunum þremur en eitt fengu nemendurnir innrammað til eignar. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mun sýningin standa til 16. október.

Á sýningunni liggur frammi sýningarskrá þar sem lesa má styttar útgáfur af sögunum þremur. Þannig er t.d.  tilvalið að líta við með börn á sýninguna og eiga þar stutta sögustund með þeim. Nálgast má sögurnar í fullri lengd á vef listasafnsins reykjanesbaer.is/listasafn og þar er einnig að finna myndir sem teknar voru við opnun sýningarinnar.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024