Óþarfi að fara til Reykjavíkur í bröns

-„Viljum mynda ákveðna stemningu, sem aldrei hefur verið í Keflavík,“ segir Hafdís Hildur Clausen, vaktstjóri Library

„Fólk hefur verið að fara til Reykjavíkur í bröns en það getur hætt því núna og komið frekar hingað,“ segir Hafdís Hildur Clausen, vaktstjóri Library, nýs veitingastaðar sem kemur í stað Vocal á Park Inn hótelinu að Hafnargötu í Reykjanesbæ, en staðurinn opnar í nýjum búningi í dag, miðvikudag.

„Við viljum mynda ákveðna stemningu, sem aldrei hefur verið í Keflavík. Þetta verður ótrúlega flott og góður matur. Við verðum með flottan bröns, kokteila, létta rétti, aðal- og eftirrétti,“ segir Hafdís.

Jón Gunnar Geirdal, markaðsmaður hjá Ysland, og lífstílsmeistarinn Arnar Gauti Sverrisson hafa stýrt framkvæmdunum á veitingastaðnum en Jón Gunnar segir að staðurinn verði á pari við það allra besta sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða í upplifun á mat og drykk. Húsgögn frá Ítalíu voru flutt inn fyrir staðinn og mörg þúsund bækur frá Bókasafni Reykjanesbæjar, sem áður var til húsa á sama stað, skreyta veitingastaðinn og gefa honum huggulegan blæ. „Við vildum halda þessum ákveðna anda bókasafnsins, þannig kemur nafnið Library,“ segir Hafdís.


Arnar Gauti og Jón Gunnar. VF-mynd: pket

Breytingin er mikil að hennar sögn, en þau vildu auka fjölbreytileikann í veitingageiranum á Suðurnesjum. „Það er enginn staður hérna svona. Þetta verður eftirtektarvert. Við viljum hafa matinn og kokteilana þannig að fólk bara verði að taka mynd af því.“


Espresso Martini verður í boði á Library, en það er einn vinsælasti kokteillinn þessa dagana. VF-mynd: Sólborg

Strákarnir segjast spenntir fyrir því að kynna staðinn fyrir heimafólki á Suðurnesjum. „Við ætlum að skila af okkur stað sem Suðurnesjamenn geta verið stoltir af. Við erum að koma með glænýjan og glæsilegan valmöguleika í upplifun fyrir heimamenn og aðra áhugasama í mat, drykk og öllu því tengt.“


Bækur frá Bókasafni Reykjanesbæjar skreyta veitingastaðinn og gefa honum huggulegan blæ.