Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ótalmargt sem stendur eftir
Fimmtudagur 1. janúar 2009 kl. 04:36

Ótalmargt sem stendur eftir



Kristján Pálsson formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja: 

Árið kveð ég með þeirri tilfinningu að við höfum þar lifað eitt viðburðarríkasta ár Íslandssögunnar. Við sáum á fyrri helmingi ársins íslenskt viðskiptalíf komast í nýjar hæðir, skuldir íslenska ríkisins nánast engar, lífskjörin þau bestu í heimi og væntingar landsmanna til framtíðarinnar miklar. Viðsnúningurinn í haust er án vafa einhver sá snarpasti sem sést hefur, það varð kúvending í orðsins fyllstu merkingu. Allt í einu urðu bankarnir gjaldþrota, efnahagslífið fór á hliðina og við verðum ein skuldugasta þjóð heimsins, fólk lækkar í launum ef það missir ekki vinnuna. Íslensk þjóð sem var full tilhlökkunar við upphaf árs er nú döpur, pirruð og ergileg. Hvernig gat þetta gerst, hvernig gat eitt þróaðasta efnahagskerfi heimsins bókstaflega hrunið á einni nóttu? Verðum við gengin í Evrópusambandið innan árs?
Mér líður eins og ég hafi lent í jarðskjálfta að stærðargráðunni 8,6, við erum núna að kanna hvað standi eftir, hverju má bjarga og hvernig. Hver á að stjórna endurreisninni?

Já, en það er svo ótalmargt sem stendur eftir þegar að er gáð, það sem mestu skiptir var vel byggt. Hér er allt til staðar enn, menntun, aðstaða, tækni, samgöngur, heilbrigðiskerfi og mannauður. Þetta höfum við Íslendingar byggt upp á aðeins 100 árum. Við fengum fyrsta ráðherra á Íslandi árið 1904, Hannes Hafstein og símann. Þá byrjuðum við með tvær hendur tómar en nú ekki. Það á ekkert að koma í veg fyrir það að við getum staðið á okkar eigin fótum og sleppt því að ganga í Evrópusambandið ef við viljum það. Þjóðin verður að kjósa.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ferðamálin hafa mjög mikla möguleika til að hjálpa við endurreisnina enda byggja þau á því að selja íslenska náttúru, perlur Íslands en það er það sem erlendir ferðamenn sem koma til landsins vilja sjá og upplifa. Reykjanesið býr yfir þessum kostum öllum með náttúrundrin úti á  Reykjanesi, Krísuvík, úfin hraun, litadýrð háhitasvæðanna, gróðurvinjar, fjöll og veiðivötn. Það hjálpar líka að myndarlega hefur verið staðið að ýmissi uppbyggingu eins og í Bláa Lóninu, Saltfisksetrinu, Fræðasetrinu, Byggðasafninu í Garði, Duushúsum, Reykjanesvirkjun og nú eru Víkingaheimar að koma. Aðgengi að helstu ferðamannastöðum eins og Gunnuhver verður lagað, göngustígar eru stikaðir og nú viljum við líka fá hreindýr. Ferðamennskan á Suðurnesjum hefur verið í gríðarlegri þróun og trúi ég því að næsti áratugur verði tími Suðurnesjanna.

Ég og hluti fjölskyldunnar fórum í spennandi ferðalag í sumar til Kanada að heimsækja eina dóttur mína sem þar býr. Kanada er einstaklega gróðursælt og fallegt land þar sem skógar umkringja ótal vötn af öllum stærðum. Stærð landsins er gríðarleg miðað við Ísland. Mér finnst Kanadamenn hógværir, skynsamir og lítt dómharðir. Við eigum mikil verðmæti í Kanada sem er velvild og stóran hóp fólks sem á rætur á Íslandi. Við getum örugglega lært mikið af okkar fólki þar.
Að lokum vil ég nota tækifærið og óska Suðurnesjamönnum og landsmönnum öllum árs og friðar með þakklæti fyrir ánægjulega samvinnu á liðnum árum. Áfram Ísland.