Öskudagur „Got Talent“ í Reykjanesbæ
Öskudagur er orðinn sá dagur ársins sem börnin bíða með mikilli eftirvæntingu. Þá er sköpunarkraftinum gefinn laus taumur og börnin mæta í skólann í nýjum hlutverkum sem þau sjálf hafa valið sér sem ofurhetjur, prinsessur, uppvakningar eða hvaðeina annað sem þeim finnst heillandi. Skólastarfið er að sjálfsögðu í takt við þá sem þangað mæta og öskudagsfjör í algleymingi.
Að skóladegi loknum hópast börnin niður í bæ og ganga á milli fyrirtækja, syngja lög sem þau hafa æft og fá að launum smáræðis glaðning. Mörg barnanna leggja mikið upp úr atriðinu sínu og hafa lagt sig fram um að æfa það vel og gera það skemmtilegt. Aðrir veðja á Gamla Nóa og láta það duga, því uppskeran er jú líklegast sú sama.
Í ár verða breytingar á þeirri dagskrá sem Reykjanesbær hefur staðið fyrir. Í stað dagskrár sem verið hefur í Reykjaneshöllinni verður nú boðið upp á viðburð í Fjörheimum (88 Húsinu). Þar gefst þeim börnum sem vilja, kostur á að mæta á tímabilinu frá kl. 12-15 og flytja á sviði öskudagsatriðið sitt undir yfirskriftinni Öskudagur „Got Talent.“ Sérstök dómnefnd veitir verðlaun fyrir bestu/skemmtilegustu atriðin og myndir af öllum atriðum verða birtar á facebook síðu Reykjanesbæjar og e.t.v. víðar. Börnum á öllum aldri er velkomið að taka þátt og þeir foreldrar sem tök hafa á eru einnig hvattir til að líta við.
Með þessum viðburði eru börnin hvött til að leggja sig fram um að búa til flott og skemmtileg atriði sem þau geta stolt sýnt hvert öðru og haft gaman að og þannig hnýtt endahnútinn á viðburðaríkan dag.
Skráning verður á staðnum.