Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Óskalög sjómanna öðru sinni
Mánudagur 8. maí 2006 kl. 14:16

Óskalög sjómanna öðru sinni

- skemmtun og fjöldasöngur á Salthúsinu í Grindavík í upphafi sjómannadagshelgar.

Þann 8.júní, fimmtudaginn fyrir sjómannadaginn, verður dagskráin Óskalög sjómanna -skemmtun og fjöldasöngur, á veitingastaðnum Salthúsinu í Grindavík. Flutt verða gömul og sígild sjómannalög eins og Síldarvalsinn, Allt á floti alls staðar, Á sjó, Þórður sjóari, Sjómenn íslenskir erum við, Vertu sæl mey, Ship ohoj að ógleymdum Simba sjómanni ásamt mörgum öðrum perlum.

Fyrir fjörinu stendur tónlistarfólk úr Grindavík ásamt hljóðfæraleikurum úr næsta nágrenni! Ætlunin er að taka forskot á sæluna og byrja sjómannadagshelgina á fimmtudagskvöldi, skemmta sér og syngja saman á þeim einstaka veitingastað sem Salthúsið er. Dagskrá þessi var haldin í fyrsta skipti á síðasta ári og er hún til heiðurs íslenska sjómanninum og sjómannalögunum okkar. Það er ósk aðstandenda að þetta verði árlegur viðburður í Grindavík enda tókst mjög vel til í fyrra og var húsfyllir og stemmningin engu lík.

Menningararfur okkar Íslendinga inniheldur ógrynni frábærra sjómannalaga og texta sem vitna til þessa lífs sem mjög margir Íslendingar þekktu hér á árum áður og gátu samsamað sig við á einn eða annan hátt. Tónlist þessi geymir m.a. rómantík síldaráranna, minnir okkur á að við Íslendingar eigum gjöfulum fiskimiðum og duglegum sjómönnum mikið að þakka.
Flytjendur dagskráarinnar eru: Dagbjartur Willardsson, Rósa Signý Baldursdóttir, Inga Björk Þórðardóttir, Inga Runólfsdóttir, Björn Erlingsson, Einar Friðgeir Björnsson, Erlingur H. Einarsson og Þröstur Harðarson, en hljómsveitina kalla þau Meðbyr.
Dagskránni lýkur með fjöldasöng sem Pétur Pálsson, útgerðarmaður í Grindavík, mun leiða.


Mynd:
Hljómsveitin Meðbyr sem stendur fyrir Óskalögum sjómanna í Grindavík fimmtudaginn 8. júní nk. Frá vinstri: Inga Björk Runólfsdóttir, Björn Erlingsson, Rósa Signý Baldursdóttir, Inga Þórðardóttir, Einar Friðgeir Björnsson, Dagbjartur Willardsson og Erlingur H. Einarsson. Á myndina vantar Þröst Harðarson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024