Óskalög sjómanna í Eldborg í kvöld
Óskalög sjómanna, -skemmtun og fjöldasöngur, haldin í fjórða sinn í kvöld og að þessu sinni í Eldborg í Svartsengi en að venju verður hitað upp fyrir sjómannadagshelgina, Sjóarann síkáta, í Grindavík.
Hljómsveitin Meðbyr flytur gömul og sígild sjómannalög og sönghópurinn Stigamenn mun einnig taka lagið en í honum eru þeir Aðalgeir Jóhannsson, Agnar Steinarsson, Kristinn Jóhannsson og Eiríkur Dagbjartsson. Þá mun söngkonan Mjöll Hólm koma fram með hljómsveitinni og flytja meðal annars hið þekkta lag „Jón er kominn heim“ sem hún gerði frægt árið 1971 og sló í gegn, m.a. í útvarpsþættinum Óskalög sjómanna.
Hægt verður að panta mat fyrir skemmtunina í Eldborg þar sem tónleikarnir fara fram, en veitingahús Bláa Lónsins mun bjóða upp á tvíréttaðan málsverð í Eldborg fyrir tónleikana á aðeins 2.500 kr. Borð má panta á netfanginu [email protected] .
Að sögn Rósu Signýjar Baldursdóttur, sem hefur skipulagt Óskalög sjómanna, eru þau til heiðurs íslenska sjómanninum, fjölskyldum þeirra og íslensku sjómannalögunum.
„Þetta er í fjórða skiptið sem við höldum Óskalög sjómanna og má því segja að komin sé hefð á þennan skemmtilega viðburð. Fólk hefur tekið þessari skemmtun mjög vel sem hefur verið hvatning fyrir okkur að halda því áfram og leggja metnað okkar í verkefnið,“ segir Rósa.
Hljómsveitina Meðbyr skipa auk Rósu þau Dagbjartur Willardsson, Inga Björk Runólfsdóttir, Inga Þórðardóttir, Björn Erlingsson, Einar Friðgeir Björnsson, Halldór Lárusson og Þröstur Harðarson.
Þess má geta að Þorsteinn Gunnar Kristjánsson, bílstjóri, verður með sætaferðir í Eldborg í tengslum við skemmtunina. Fyrsta ferð er áætluð upp úr kl. 19 frá Aðalbraut en fólk getur haft samband við Þorstein Gunnar.
Mynd: Hljómsveitin Meðbyr í góðum gír að vanda. Frá vinstri: Dagbjartur, Rósa Signý, Inga Björk, Inga, Björn, Halldór, Þröstur og Einar Friðgeir.