Öryggisbrot mesta vandamálið í dag
Stofnandi AwareGo skoðar tilboð fjárfesta eftir mikla uppsveiflu að undanförnu.
Íslenska fyrirtækið AwareGO er á fljúgandi siglingu eftir að gengið hafi á ýmsu frá stofnun þess fyrir átta árum. Þar eru framleidd einnar mínútu löng öryggisvitundarmyndbönd fyrir fyrirtæki og stofnanir. Ragnar Sigurðsson, eigandi og framkvæmdastjóri, segir að skipt hafi máli að hlusta á væntingar viðskiptavina og bæta ferlið. Auk stórra íslenskra fyrirtækja er 10. stærsti banki í heimi meðal viðskiptavina AwareGo og stefnt er að því að landa stórum í viðbót á næstunni.
„Maður stökk út í djúpu laugina á sínum tíma og komst að því að það sem við vorum að gera þá hentaði ekki. Fyrsta útgáfan af myndböndunum var of löng og ekki það sem leitað var eftir. Ég hef ekki tekið það saman en mér líður eins og að það hafi verið 200 nei á móti hverju jái,“ segir Ragnar. Þá hafi verið farið í að fjármagna ný myndbönd út frá fínum ábendingum og það tók tíma og þau voru dýr í framleiðslu. „Síðasta sumar fengum við svo framleiðsluaðila til að vinna þetta með okkur. Við gerum tvö myndbönd á mánuði og þurfum ekki að framleiða 30 myndbönd fyrirfram sem kosta kannski 20 milljónir, heldur seljum við áskriftir, framleiðum og afhendum jafn óðum. Þetta er þægilegri rekstur og ekki þörf á leggja út mikið fjármagn fyrirfram í von og óvon um að seljist. Þá fáum við viðbrögð jafn óðum og getum breytt og bætt fyrir næstu framleiðslu.“
Úr myndbandi sem AwareGo framleiðir.
Öryggisbrot mesta vandamálið í dag
Ragnar segir að markaður fyrir þessar lausnir sé einmitt að opnast um þessar mundir. Allir séu með eldveggi og vírusvarnir og næsta áskorun sé að fyrirbyggja öryggisbrot . „Könnun sem gerð var fyrir nokkrum mánuðum sýndi að ef þessi mál eru tækluð vel, að fræða starfsfólkið, þá minnkar kostnaður vegna öryggisbrota um 55-60%. Þau eru mesta vandamálið í dag.“ Meginatriðið í myndbandavinnslunni sé alltaf eins; kynning í byrjun (þar sem hægt er að setja inn einkennismerki), svo fræðslumyndbandið og í lokin er textaglæra um hver skilaboðin voru. Þau sé hægt að sérsníða. „Við gerum þetta allt öðruvísi en aðrir. Það eru 19 aðilar í heiminum sem eru leiðtogar í svona og þeir eru allir með power point með rödd sem segir hvað má ekki og hverju þarf að passa sig. á. Við gerum nokkurs konar auglýsingar með öryggisvitund.“ Mörg fyrirtæki og stofnanir eyði klukkutíma af dýrmætum tíma starfsfólks í fyrirlestur, kannski einu sinni á ári, sem kannski skilur ekki nægilega mikið eftir sig. „Miklu nær að koma með svona stutt myndbönd, einu sinni til tvisvar í mánuði sem fólk horfir á þegar best stendur á.“
Heppinn með sölustjóra og framleiðendur
Framleiðslufyrirtækið Snark gerir myndböndin fyrir AwareGo. „Þetta eru feykilega klárir strákar, mjög frjóir varðandi handritagerð og hugmyndir. Leikstjórinn þeirra var aðstoðarleikstóri Latabæjarþáttanna. Svo er sölustjórinn minn, Rögnvaldur, alveg rosalega góður. Ég var mjög heppinn að landa honum. Við tveir erum starfsmenn fyrirtækisins,“ segir Ragnar og bendir á að þeir séu búnir að byggja upp nokkuð gott tengslanet á liðnum árum. „Þegar við náum svona stórum aðilum til okkar eins og Credit Suisse bankann, þá segja þeir öðrum hvað þeir eru að gera í öryggismálum og þannig fréttist sem við erum að gera. Að þeir skuli treysta okkur til að gera þetta rétt.“
Ragnar deildi veltu svissneska bankans niður í starfsmannafjölda og svo niður í mínútur og segist hafa fengið út að mínútan kosti þá 26 milljónir. „Myndböndin okkar eru ein mínúta. Þeir borga okkur töluvert fyrir þetta en það kostar þá miklu minna að keyra þetta. Og svo kostar náttúrlega langmest að gera þetta ekki. Við reynum að sannfæra fyrirtæki um það. Það eru 80% líkur á miklum fjárhagslegum skaða ef þetta er ekki gert. Í 1000 manna fyritæki kostar pakki fá okkur 3-4 milljónir. En það eru 50% líkur á því að þeir spari 130% meira.“
Í viðræðum við samkeppnisaðila
Ragnar segist alltaf reyna að tengjast þeim sem hann hittir hverju sinni. „Fólk sem ég hef kynnst hefur kannski unnið sig upp í starfi á milli ára eða flutt sig á milli fyrirtækja og það getur nýst vel og er kannski hárrétta fólkið til að tala við þegar selja á vöruna síðar. Það skiptir máli að halda sambandi og senda reglulega eitthvað til að minna á sig.“ Þá notar Ragnar samfélagsmiðlana Twitter og Linkedin líka mjög mikið. „Núna setjum við eitt og eitt myndband á Linkedin og það fær mörghundruð áhorf.“ Þeir séu í viðræðum við tvo af þessum stærstu í sama bransa og þeir um að útvega þeim fræðsluefni í gegnum þeirra kerfin þeirra gegn söluþóknun. Það gæti vara vel hentað þeirra viðskiptavinum. „Einn af stærstu samkeppnisaðilum okkar sérhæfir sig bara í plat-tölvupósti en við erum með allt sviðið. Frá lokuðu rými, vírusvörnum til öryggi heima fyrir og þráðlausu kerfi heima.“
Góð tengsl geta borgað sig síðar
Varðandi næstu skref segir Ragnar að verið sé að hugsa um að auka við framleiðsluna og fara inn á fleiri svið. „Það er vegna ráðlegginga frá okkar viðskiptavinum. T.d. að starfsmenn séu ekki að gera eitthvað sem þeir mega ekki eins og að ráðleggja eiturlyfjasölum um hvernig á að skjóta undan skatti. Það gerðist í einum banka og lak út og við það skaðaðist orðspor bankans.“ AwareGo sé í viðræðum við banka sem sé á lista yfir þá 25 stærstu, út frá meðmælum frá Credit Suisse. „Einnig hef ég verið í sambandi við annan aðila sem ég hitti á sýningu 2010 og hef verið í sambandi við síðan. Hann starfar hjá 10. stærsta banka í heimi. Þar eru 140 þúsund leyfi á 5 tungumálum. Credit Suisse er með 50 þúsund.“
Eins og fram hefur komið getur tekið drjúgan tíma fyrir frumkvöðlafyrirtæki að ná góðum sprettum, vaxa og dafna. Ragnar vitnar í þekktasta fjárfesti á Íslandi sem sagði „Over night success takes eleven years“. „Ef maður einbeitir sér að því sem maður hefur trú á þá kemur að því að annað hvort springur allt í loft upp eða maður meikar það. Þó að ég sé menntaður hakkari með öryggisgráðurnar upp á tíu hvet ég viðskiptavini okkar til að koma með vandamálin til okkar sem við finnum svo lausnir á.“
Öryggisvitund - Öryggi á vinnustað from Ragnar Sigurdsson on Vimeo.
Skara framúr í myndefni
Spurður um framtíðaráform segir Ragnar að annars vegar sé hægt að láta AwareGo vaxa eins og núna en einnig sé kominn áhugi hjá fjárfestum vegna þess hve stórum samningum fyrirtækið sé að landa. „Það er áhugavert og við erum í viðræðum. Það myndi gefa okkur tækifæri til þess að stækka mun hraðar.“ Öryggisvitundarmarkaðurinn sé ristastór, um 140 milljarðar íslenskra króna. Þar af séu 19 stærstu aðilarnir með um tvo þriðju markaðarins. „Við stefnum að því að stríða þeim aðeins og reyna að komast á listann. Við erum í umsóknarferli núna um að fara inn á hann og eigum alveg tilkall til þess miðað við hversu vel búið er að ganga að undanförnu.“ AwareGo sé líka að gera þetta allt öðruvísi en hinir, sem hugsi aðallega að hugsa um hugbúnaðinn. „Við hugsum bara um kennsluna og að hægt sé að nota hana í hvaða hugbúnað sem er. Myndefnið er mikilvægast og þar eru gæðin best hjá okkur,“ segir Ragnar afar bjartsýnn að lokum.
VF/Olga Björt