Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Örvar stýrir þorrablóti Njarðvíkur
Fimmtudagur 19. janúar 2012 kl. 17:37

Örvar stýrir þorrablóti Njarðvíkur

Laugardaginn 21. janúar nk. stendur Ungmennafélag Njarðvíkur fyrir þorrablóti Njarðvíkinga. Eru það allar deildir innan félagsins sem koma að framkvæmdinni og hefur undirbúningur staðið í all nokkurn tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hafa Njarðvíkingar blótað þorrann á fyrsta laugardegi í þorra í hartnær 70 ár. Fyrst í samkomuhúsinu Krossinum en síðan í félagsheimilinu Stapanum eftir að hann var tekinn í notkun árið 1965 en félagsheimilið var þá í eigu Ungmennafélagsins og Kvenfélagsins í Njarðvík. Margir muna eftir þessum skemmtilegu Njarðvíkurblótum þegar Thordersen feðgar fluttu annál ársins en þeir gerðu það alltaf á eftirminnilegan hátt.

Nú hefur hins vegar verið ákveðið að halda blótið í íþróttahúsinu í Njarðvík í fyrsta skipti sem segja má að sé aðal samkomustaður Njarðvíkinga í dag. Fjölbreytt dagskrá verður á blótinu undir góðri stjórn veislustjóra sem er enginn annar en hinn háttvísi Örvar Kristjánsson.

Miðasala hefur gengið mjög vel á blótið en ennþá eru nokkrir miðar til. Skorað er á alla Njarðvíkinga og nærsveitarmenn að mæta og halda á lofti þessari gömlu hefð í Njarðvíkum.