Örlagarík hnéaðgerð hjá Bjarna
Garðmaður gefur út barnabók
Það má eiginlega segja að þetta sé allt hnéaðgerðinni að þakka að út er komin ný barnabók eftir Bjarna Sigurðsson sem er fæddur og uppalinn í Garðinum. Steinninn í fjárhúsinu er bók sem hann skrifaði fyrir tíu árum, á meðan hann var að jafna sig eftir hnéaðgerð heima hjá sér og gat sig hvergi hreyft. Honum leiddist að liggja með löppina upp í loftið og nennti ekki lengur að vafra um á netinu og ákvað að búa til ævintýri til að skemmta syni sínum.
Hvaðan kemur hugmyndin?
„Sagan kom til mín og flæddi fram á mjög stuttum tíma. Þessar persónur í bókinni eru flestar til. Í sögunni eru meðal annars bræður tengdapabba heitins sem og sonur minn en ég tek mér skáldaleyfi í þjóðlegum stíl þegar ég skrifa um fjárhúsin sem enn eru til og tröll sem sumir halda fram að séu til,“ segir Bjarni og glottir. Hann þekkir vel til fjárbúskapar þessara frænda sonar síns en fjölskyldan hefur fylgst með áhugamálsbúskapnum hjá þeim bræðrum Degi og Jónasi á Stafnesinu í Sandgerði í mörg ár.
Spennandi barnabók
„Ég nota það umhverfi sem ég þekki. Börnin okkar hafa fengið að kynnast þessum fjárbúskap þeirra bræðra og hefur fundist rosa spennandi að fylgjast með lömbunum á vorin. Það er ævintýri í raun og veru eins og sagan sem er ævintýraleg með boðskap. Maður getur gert hvað sem er, ef maður leggur sig fram. Fyrst var þetta bara til að skemmta syni mínum á sínum tíma fyrir tíu árum á meðan ég var að jafna mig eftir hnéaðgerð. Ég las söguna einnig fyrir vini sonar míns og sá að þeim fannst hún skemmtileg. Svo setti ég þessi skrif til hliðar og hef verið að glugga í þetta í gegnum árin, klappa sögunni af og til en svo ákvað ég að nú væri tími til kominn að gera alvöru úr þessu og gefa bókina út sjálfur. Ég varð mér úti um teikniforrit og sé um alla hönnun í bókinni sjálfur. Það var lærdómsríkt,“ segir Bjarni og bendir á að með hverju seldu eintaki fari 500 krónur í orgelsjóð Keflavíkurkirkju. Bókin fæst jafnframt hjá Nettó, Keflavíkurkirkju og í Bitanum.
Stefnt er að því að halda útgáfuteiti á Bitanum fljótlega og hægt er að fylgjast með á Facebook-síðunni Steinninn í Fjárhúsinu.