Orkusviðsmeðferð gegn sleni og þunglyndi í skammdeginu
Nú í skammdeginu þegar þunglyndið og slenið leggst á sum okkar, er svokölluð orkusviðsmeðferð ein þeirra leiða sem gæti gagnast til að vinna á því. Guðrún Eyjólfsdóttir, hómópati í Reykjanesbæ, segir meðferðina hafa gefið góða raun en hún byggir á því að koma á jafnvægi á orkusviði líkamans með því að virkja ákveðna punkta hans, ekkert ósvipað og nálarstunguaðferðin byggir á nema að hér eru ekki notaðar nálar heldar bankað á ákveðna punkta.
„Það hefur komið í ljós að aðferðin er mjög áhrifarík í þeim tilvikum þegar fólk lendir í sálarkreppu sem kemur upp aftur og aftur og tengist neikvæðum hugsunum og tilfinningum sem grafið hafa um sig og virðast engan endi ætla að taka,” segir Guðrún aðspurð út í meðferðina.
Hún segir dæmi um þetta andleg viðbrögð við dramatískri reynslu, svo sem slysum, alvarlegum sjúkdómum eða ýmis konar áföllum. Aðferðin hefur gefið góða raun við fælni, angist og þunglyndi, flughræðslu, lofthræðslu, prófskrekk og innlokunarkennd svo eitthvað sé nefnt af þeim huglægu vandamálum sem hrjáð geta mannfólkið.
„Það er tilvalið að nota þessa meðferð í mörgum öðrum tilvikum,.s.s. til að vinna á krónískum sársauka og draga úr streitu. Þeir sem hafa beitt þessari tækni í meðferð telja sig ná árangri í 70-80% tilvika,” segir Guðrún. Þeir sem vilja komast í orkusviðsmeðferð hjá Guðrúnu geta haft samband við hana í síma 899 0533.
Mynd: Guðrún Eyjólfsdóttir. VF-mynd:elg