Orgeltónleikar í Grindavíkurkirkju
Friðrik Vignir Stefánsson organisti Seltjarnarneskirkju heldur tónleika í Grindavíkurkirkju sunnudaginn 6. september nk. kl. 16.00. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð Friðriks á fjögur íslensk orgel sem smíðuð eru af Björgvini Tómasyni, orgelsmið. Auk Grindavíkurkirkju eru orgelin í Laugarneskirkju í Reykjavík, Hjallakirkju í Kópavogi og Seltjarnarneskirkju á Valhúsahæð.
Friðrik Vignir Stefánsson er fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akranesi og kantors- og einleikaraprófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Kennarar hans á orgel voru Haukur Guðlaugsson, Fríða Lárusdóttir og Hörður Áskelsson. Veturinn 2005-2006 var Friðrik Vignir við orgelnám í Konunglega danska tónlistarháskólanum, þar sem kennari hans var Lasse Ewerlöf. Á árunum 1988-2005 var hann organisti og kórstjóri við Grundarfjarðarkirkju, sem og skólastjóri Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Friðrik Vignir er nú organisti við Seltjarnarneskirkju. Friðrik hefur á síðustu árum haldið fjölda orgeltónleika bæði hérlendis og erlendis, ásamt því að sækja meistaranámskeið hjá Rose Kirn, Jim Gotche , Mattias Wager, Christopher Herrick o. fl.
Á efnisskrá Friðriks Vignis eru orgelverk eftir Buxtehude, J.S. Bach, Händel, systkinin Fanny og Felix Mendelssohn , djass-tilbrigði eftir Johannes Matthias Michel yfir sálmalagið “Eigi stjörnum ofar” og nýlegt verk eftir Susanne Kugelmeier.
Tónleikar Friðriks Vignis hefjast sem fyrr segir kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.