Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Orgeltónleikar í Grindavíkurkirkju
Fimmtudagur 3. september 2009 kl. 14:59

Orgeltónleikar í Grindavíkurkirkju


Friðrik Vignir Stefánsson organisti Seltjarnarneskirkju heldur tónleika í Grindavíkurkirkju sunnudaginn 6. september nk. kl. 16.00. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð Friðriks á fjögur íslensk orgel sem smíðuð eru af Björgvini Tómasyni, orgelsmið. Auk Grindavíkurkirkju eru orgelin í Laugarneskirkju í Reykjavík, Hjallakirkju í Kópavogi og Seltjarnarneskirkju á Valhúsahæð.
 
Friðrik Vignir Stefánsson er fæddur og uppalinn á Akranesi.  Hann lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum á Akranesi og kantors- og einleikaraprófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar.  Kennarar hans á orgel voru Haukur Guðlaugsson, Fríða Lárusdóttir og Hörður Áskelsson. Veturinn 2005-2006 var Friðrik Vignir við orgelnám í Konunglega danska tónlistarháskólanum, þar sem kennari hans var Lasse Ewerlöf. Á árunum 1988-2005 var  hann  organisti og kórstjóri við Grundarfjarðarkirkju, sem og skólastjóri Tónlistarskóla Grundarfjarðar.  Friðrik Vignir er nú organisti við Seltjarnarneskirkju.  Friðrik hefur á síðustu árum haldið fjölda orgeltónleika bæði hérlendis og erlendis, ásamt því að sækja meistaranámskeið hjá Rose Kirn, Jim Gotche , Mattias Wager, Christopher Herrick o. fl.
 
Á efnisskrá Friðriks Vignis eru orgelverk eftir Buxtehude, J.S. Bach, Händel, systkinin Fanny og Felix Mendelssohn , djass-tilbrigði eftir Johannes Matthias Michel yfir sálmalagið “Eigi stjörnum ofar” og nýlegt verk eftir Susanne Kugelmeier.
 
Tónleikar Friðriks Vignis hefjast sem fyrr segir kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024