Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Organistinn sem spilar Daft punk
Kristján Hrannar Pálsson, organisti Grindavíkurkirkju.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 17. apríl 2023 kl. 09:16

Organistinn sem spilar Daft punk

Kom inn í tónlistarstarfið í Grindavík eins og stormsveipur – Auðveldara að fá fólk í kórinn núna því mörg spennandi verkefni eru framundan

Kristján Hrannar Pálsson, organisti Grindavíkurkirkju, tók við stöðunni í fyrra en segja má að hann sé búinn að koma inn í tónlistarstarfið í Grindavík eins og stormsveipur. Nokkrir tónleikar hafa verið haldnir, kirkjukórinn fór öðruvísi leið á síðustu jólatónleikum sínum og margt er framundan. Það blundar líka poppari í Kristjáni en hann tók þátt í Iceland Airwaves í fyrra, flutti þá plötu Daft punk, Discovery, á Klais-orgel Hallgrímskirkju.

Þegar blaðamann bar að garði var Kristján að klára sunnudagaskóla barnanna í kirkjunni en þar var mikið líf og fjör. „Ég er fæddur í Reykjavík, ólst upp í vesturbænum. Ég byrjaði að læra á píanó þegar ég var sjö ára gamall, þ.e. klassískt og var í því næstu árin en um fjórtán ára aldurinn fékk nóg af því og vildi fara læra jasspíanóleik og komst inn í FÍH. Kennarinn minn þar var goðsögnin Þórir Baldursson en á þeim tíma vissi ég ekkert hver hann var eða hvað hann hafði afrekað. Ég lærði mjög mikið af Þóri og út frá þessu fór ég í alls kyns hljómsveitir og spilaði mjög fjölbreytta tónlist, þjóðlaga-, jasstónlist, popp og jass svo dæmi séu tekin. Ég fann að ég vildi geta unnið við þetta en það er erfitt nema maður geti komist í fasta vinnu, eins og organistastöðu. Ég skráði mig því í slíkt nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar árið 2017, í því er t.d. kennt að útsetja sálma, stjórna kór, spila á orgel, söngtækni en þetta er praktíkasta tónlistarnám sem ég get hugsað mér. Nánast allir sem klára þetta nám eru öruggir með vinnu sem tónlistarmaður. Ég kláraði námið 2019, hafði stofnað Óháða kórinn árið áður og var að leysa af, m.a. í Grindavík þegar Erla sem var organisti, var í fæðingarorlofi. Svo ákvað hún að fara annað og þá fékk ég stöðuna, hef verið fastráðinn í vetur og líst mjög vel á mig hér.“

Annar fóturinn í klassíkinni, hinn í poppinu

Þó svo að Kristján sé farinn að spila mikið á kirkjuorgelið þá blundar popparinn alltaf í honum. „Segja má að ég sé með annan fótinn í klassíkinni, hinn í poppinu. Stundum veit ég ekki alveg hvoru megin ég vil vera en þá er fínt að geta verið í báðu. Það er alltaf að verða algengara og algengara að organistar séu í fleiri en einni tónlistarstefnu. Fyrir utan að vera spila hér í Grindavík og í Óháða söfnuðinum, tek ég að mér fullt af öðruvísi giggum, það er mjög gott að geta gripið í það líka. Ísland er það lítið land að erfitt er að sérhæfa sig í einhverju einu. Eflaust spilar popparinn í mér rullu í því að ég hef komið með nokkuð af öðruvísi efni fyrir kirkjukórinn að flytja. Við héldum frábæra styrktartónleika fyrir framkvæmdum við Grindavíkurkirkju sl. haust og fluttum nokkur þekkt popplög við góðar undirtektir,“ segir Kristján.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Úr sunnudagaskólanum í Grindavíkurkirkju.

Öðruvísi jólatónleikar og Jesus Christ Superstar á páskum?

Síðustu jól fór kór Grindavíkurkirkju aðra leið en venjulega á sínum árlegu jólatónleikum. „Ég tók ástfóstri við jólaplötuna Hátíð fer að höndum ein með Þremur á palli þegar ég var ungur og árið 2019 flutti Óháði kórinn plötuna í heild sinni. Ég bar þetta undir kór Grindavíkurkirkju og þau voru mjög jákvæð og við fluttum plötuna. Á næstu jólatónleikum verður jólaplata Mariu Carey, Merry Christmas, flutt ásamt einsöngvara og hljómsveit. Það er mikil gróska í grindvísku tónlistarlífi og fullt af flottu tónlistarfólki hér.

Næstu páska er planið að flytja tónlist úr Jesus Christ Superstar en við þurfum væntanlega utanaðkomandi hjálp til að framkvæma það. Þetta er kannski það sem ég brenn fyrir, að vinna í tónlist sem mér finnst skemmtileg og ég tel henta. Ef að mér og kórnum finnst tónlistin skemmtileg, þá smitar það pottþétt út frá sér. Ég er góður í því sem ég er góður í og er ekki góður í því sem ég er ekki góður í, ef þú skilur mig. Ég myndi ekki geta sett á svið klassísk verk, eins vel og aðrir sem eru betri í því.“

Daft punk í Hallgrímskirkju

Kristján Hrannar tók þátt í síðustu Iceland Airwaves tónlistarhátíð. „Ég útsetti plötuna Discovery með Daft Punk og flutti í Hallgrímskirkju, sem var ein af svokölluðum „partner venue“ tónleikastöðum. Ég spilaði þetta fyrst í Lauganeskirkju árinu áður og það var uppselt og mjög vel lukkað. Organisti Hallgrímskirkju, Björn Steinar Sólbergsson vissi af því og spurði mig hvort ég myndi vilja endurtaka leikinn og ég sló til. Ég ætlaði varla að trúa eigin augum þegar það seldist upp á tónleikana, alls 650 miðar en venjulega eru orgeltónleikar ekki svo vel sóttir. Þetta concept er greinilega að virka og það eru uppi áform um að ég spili þetta erlendis, t.d. í Frakklandi sem er heimavöllur Daft Punk. Ég er mikið fyrir svona raftónlist því hún hentar mjög vel til flutnings á kirkjuorgeli, syntar sem eru mikið notaðir í raftónlist urðu t.d. til út frá kirkjuorgeli, segja má að kirkjuorgelið sé afi syntans.“

Vill fjölga í kirkjukórnum

Kristján þekkir ófáa tónlistarmennina en á dögunum fékk hann trommuleikarann góðkunna, Matthías Hemstock og bassaleikarann Birgi Stein Theodórsson, til að flytja tónlist með sér á venjulegu sunnudagskvöldi á svokallaðri jassmessu í Grindavíkurkirkju en hvað er framundan? „Starfið í vor og sumar verður með nokkuð hefðbundnum hætti en ég mun halda áfram að fá tónlistarmenn með mér af og til. Kórinn mun svo hefja undirbúning fyrir jólatónleikana í haust en ég vil gjarnan fjölga í kórnum. Ég held að það verði auðveldara að fá fólk í kórinn núna því mörg spennandi verkefni eru framundan. Ég hvet alla til að koma og prófa, sérstaklega vantar karlraddir. Það er mjög gaman að vera í kór, góður félagsskapur og fólk fær fría söngkennslu því ég er í raun að kenna fólki að syngja. Það er frábært að sjá framfarirnar sem fólk sýnir, það gefur mér mjög mikið,“ sagði Kristján Hrannar að lokum.