„Orðin leið á að vinka bless,“ segir Irmý Ósk, verðandi flugfreyja
Irmý Ósk Róbertsdóttir hefur starfað hjá Airport Associates síðan síðasta sumar en hefur verið að læra flugfreyjuna. „Airport Associates er handling agent Iceland Express eins og er en verið er að stofna nýtt fyrirtæki innan Iceland Express sem heitir Iceland Express Handling og mun sjá um alla farþegaþjónustu þeirra. Ég flýg svo fyrsta flugið líklegast um miðjan júní hjá Iceland Express sem flugfreyja,“ sagði Irmý Ósk, spennt fyrir flugfreyju starfinu.
„Starfið sem ég er í núna er eitt það skemmtilegasta og fjölbreyttasta sem ég hef unnið við. Enginn dagur er eins. Sama hvort allt gangi upp eins og í sögu eða einhver vandamál komi upp er bara stuð í vinnunni. Í starfi sem þessu þýðir ekkert annað en að vera jákvæður, láta hlutina ganga upp og tækla vandamálin séu þau einhver.“
Irmý segir samstarfsfólkið skipta miklu máli og það geri góðan dag enn betri. „En í raun er það allt ferlið í kringum flugin sem er svo skemmtilegt, sem og allir farþegarnir. Fólk er jafn ólíkt og það er margt og það er það skemmtilega við starfið. Maður getur átt von á hverju sem er.“
Irmý segist ekki hafa innritað neina fræga erlenda manneskju en oft hefur hún þó innritað forsetafrúnna, Dorrit Moussaieff. Einnig hefur hún afgreitt tónlistarfólk, leikara og viðskiptamenn sem fólk kannast við. „Í raun hefur maður engan tíma til að vera velta fyrir sér hvot einstaklingurinn sé frægur eða ekki. Innritunin þarf að ganga svo hratt fyrir sig. En auðvitað er ekkert leiðinlegt að innrita eða sjá frægt fólk í flugstöðinni.“
En mun þetta starf hjálpa þér eitthvað við að komast í flugfreyjuna?
„Já, ég held það. Þekkingin sem ég hef öðlast í vinnunni hjálpaði mér til dæmis mikið þegar ég sat fimm vikna flugfreyjunámskeið hjá Iceland Express núna um daginn. Að þekkja flugferlið, allan þann undirbúning sem liggur á bakvið hvert flug og öryggisatriðin hjálpaði mér mikið.“
Hvað er svona heillandi við flugfreyjustarfið?
„Aðal ástæðan fyrir því að ég sótti um flugfreyjuna er sú að ég hef reynslu af allri afgreiðslu flugvéla og farþega. Það má segja að ég sé orðin pínu leið á að loka vélunum alltaf og vinka bless. Nú vil ég breyta til og fá að fara með. Lenda kanski í nokkrum ævintýrum, ferðast og hafa gaman. Svo á ég nokkrar vinkonur sem starfa sem flugfreyjur og líkar þeim vel. Mér finnst æðislegt að vinna í afgreiðslunni eða innritun farþega því þar er nóg að gera, það vantar ekki, en fyrst mér bauðst þetta tækifæri var ég ekki lengi að stökkva á það.“
Irmý segir kostina við að starfa hjá Iceland Express vera mjög marga en aðal kosturinn sé hvað fyrirtækið sé ungt og skemmtilegt. „Andinn hérna er léttur og það finnst mér mest heillandi. Iceland Express er opið fyrir nýjungum og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Allt sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur virðist ganga upp sama hversu umfangsmikið það er. Sem dæmi má nefna að félagið byrjaði að fljúga síðasta sumar til Bandaríkjanna og núna er verið að setja á fót nýtt fyrirtæki, Iceland Express Handling, svo það ætti að segja sitt.“ sagði Irmý Ósk að lokum, bjartsýn á framtíðina.
[email protected]