Opnun sýningar í Listasafni Reykjanesbæjar
Listasafn Reykjanesbæjar tekur nú þátt í Listahátíð í Reykjavík í annað sinn með opnun sýningar Olgu Bergmann laugardaginn 16. maí kl. 17.00. Olga hefur farið fremur óhefðbundnar leiðir í listsköpun sinni en nýtur virðingar fyrir áleitin og vönduð verk. Sýningin ber heitið Í húsi sársaukans eða House of Pain þar sem stefnt er saman myndbandsverkum, skúlptúrum og fundnum hlutum. Reynt er að skyggnast á bak við þær hugrenningar og tilfinningar sem skapast við missi, áföll eða umbyltingu aðstæðna og leitast við að leiða í ljós hvað sú togstreita sem af slíku hlýst hefur í för með sér svo sem stöðnun eða nýtt upphaf.
Sýningin er í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og stendur til 17. ágúst. Þar er opið virka daga frá kl. 11.00 – 17.00 og um helgar frá kl. 13.00 – 17.00 og aðgangur er ókeypis.