Opnun í Suðsuðvestur
Huginn Þór Arason mun halda sína þriðju einkasýningu “Yfirhafnir” í Suðsuðvestur í Keflavík laugardaginn 6.ágúst kl:16.00. Huginn mun sýna ný verk sérstaklega unnin fyrir Suðsuðvestur. Gjörningur verður framinn á opnunardaginn.
Um sýninguna segir Huginn m.a; " Sem unglingur var ég alltaf hrifinn af abstrakt málverkum, það fannst mér vera myndlist. Þoldi t.d ekki Andy Warhol, skildi aldrei hvað hann var að gera eða vildi ekki skilja það . Mér fannst fáránlegt að geta gert sjálfan sig algjörlega að myndlistarverki. Seinna komst ég að því að það vildi ég alltaf gera sjálfur. Það er oft þannig með hluti sem maður þolir ekki , maður þráir þá. "
Huginn er fæddur 1976 í Reykjavík og hlaut úthlutun úr styrktarsjóði Guðmundu Andrésdóttur á síðasta ári. Hann hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima sem og erlendis. Ennfremur er hann einn þriggja meðlima Signals in the heavens sem nýverið hélt þrjár sýningar í New York og nú seinast í Nýlistasafninu í maí. Þess má geta að Huginn tekur einnig þátt í samsýningunni Tívolí sem opnar sömu helgi í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Suðsuðvestur er staðsett á Hafnargötu 22 í Reykjanesbær. Þar er opið á fimmtudögum og föstudögum frá 16 – 18 og um helgar frá 14 – 17. Sýningin stendur til 28. ágúst. Nánari upplýsingar má finna á www.sudsudvestur.is