Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Opnar vinnustofur við Gauksstaðaveg í Garði
Fimmtudagur 11. desember 2008 kl. 10:35

Opnar vinnustofur við Gauksstaðaveg í Garði



Allar helgar fram að jólum verður sannkölluð jólastemning við Gauksstaðaveg í Garði. Þar hafa listamenn opnað vinnustofur sínar fyrir gestum og gangandi og bjóða fólki að skoða hvað þeir eru að vinna að ásamt því að selja rammíslenskar vörur sem unnar eru í Garðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við Gauksstaðaveg 2a býr og starfar Reynir Katrínar en hann er þekktur fyrir vinnu sína í tengslum við Goð og Gyðjur goðafræðinnar. Hann vinnur mikið úr íslenskum steinum, gerir úr þeim hálsmen, rúnasett og styrktar- og verndarsteina. Þá er Reynir einnig þekktur fyrir myndlist sína og hefur hann haldið fjölda sýninga á verkum sínum. Á vinnustofu hans gefst fólki kostur á að kasta rúnum og skyggnast inní framtíðina ásamt því að skoða vinnu og verk Reynis. Skemmst er að minnast nýlegs spádóms þar sem þingmaður nokkur kemur við sögu.

Á Gauksstöðum búa og starfa hjónin Ari Svavarsson og Ágústa G. Malmquist. Þau eru myndlistarmenn og hönnuðir sem hafa unnið mikið með arfleifð okkar Íslendinga. Þau vinna með hinar fornu rúnir og eru heilluð af náttúrunni og því sem að hún gefur af sér. Þau hafa einnig skoðað forn spil og gestaþrautir og endurskapa þau ásamt því að búa til ný. Hjá þeim eru á boðstólnum rúnasett og spáspil, Hnefatafl og fleiri spil og leikir, gestaþrautir og óskasteinar, gripir mótaðir í eldi og steinakertin og jólaeplakertin vinsælu. Einnig gera þau verndargripi ýmiskonar.

Vinnustofurnar eru opnar laugardaga og sunnudaga fram að jólum milli kl. 13.00 og 18.00. Einnig eftir samkomulagi.