Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Opnar listasýningu í Narsarsuaq
Mánudagur 7. febrúar 2011 kl. 09:19

Opnar listasýningu í Narsarsuaq

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson, listamaður, kokkur og lagahöfundur með meiru, opnaði listasýningu í Narsarsuaq á Grænlandi föstudaginn 4. febrúar. Verkin eru öll unnin úr tré og ýmsum hlutum sem fólk hefur skilið eftir sig hér og þar í gegnum tíðina.

„Það hefur verið mikil upplifun að vera hérna á Grænlandi þennan stutta tíma yfir bæði jól og áramót,“ sagði Guðmundur. „Hér er landslagið mjög svipað og heima á Íslandi, enda settist Eiríkur rauði hér að í Bröttuhlíð.“ Guðmundur segir Grænlendinga vera merkilegt fólk en sé lítið fyrir að tala. „En hér segir þögnin allt sem segja þarf,“ bætti hann við.

Í Narsarsuaq búa um 156 manns og vinna flestir hjá Grænlandsflugi en Narsarsuaq er alþjóðlegur flugvöllur í Grænlandi. Þess má líka geta að þarna var á sínum tíma ein af stærstu herstöðum Bandaríkjamanna utan Bandaríkjanna en þarna bjuggu yfir 15.000 hermenn með fjölskyldur. „Hér er hægt að sjá ummerki allstaðar en mest af mannvirkjunum hafa verið fjarlægð. Þó eru nokkrar stórar byggingar eftir og ganga þær flestar undir heitinu IKEA byggingarnar,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur er eins og áður segir lærður kokkur og hefur mikinn áhuga á matargerð. „Grænlenskur matur er mjög merkilegur að mörgu leiti en hann er kjarnmikill og oft mikið soðinn eða bara algjörlega hrár.“ Að sögn Guðmundar er það sameiginlegt hjá öllum Grænlendingum sem hann hefur kynnst, þá er þeim öllum hlýtt til Íslands og Íslendinga og bera þeim söguna vel. „Annað en segja má um frændur okkar Dani!,“ bætti Guðmundur við í lokin.

[email protected]




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024