Opnaði heimilið fyrir ferðamönnum
- Gistiheimili í gömlu fjósi
Hulda Sveinsdóttir hefur rekið gistiheimilið Raven´s Bed and Breakfast við höfnina í Njarðvík frá árinu 2013. Fyrst í stað var gistiheimilið aðeins opið yfir sumartímann en nú er í fyrsta sinn opið yfir veturinn. Gistiheimilið er í fjósi sem talið er að hafi verið byggt snemma á 20. öld og tilheyrði bænum Höskuldarkoti. Sjálf býr Hulda á gistiheimilinu og deilir því eldhúsi, baði og stofu með ferðamönnum. Hún segir þurfa nokkra þolinmæði til að búa við þær aðstæður en að sama skapi sé það mjög líflegt. „Um 99,9 prósent gestanna eru alveg yndislegt fólk. Um daginn voru á sama tíma hjá mér gestir frá Bandaríkjunum, Ítalíu, Rússlandi, Póllandi og Írlandi. Það er virkilega gefandi að opna heimili sitt á þennan hátt og manni leiðist aldrei,“ segir hún.
Yfir sumartímann býður Hulda upp á morgunverð og bakar brauð og kökur daglega og lagar te úr birki, myntu og hvönn sem hún tínir í kringum fjósið. „Ég er svo mikið heimavið og nýti daginn vel og undirbý til að gera dvölina sem þægilegasta fyrir gestina.“ Í vetur er verðið fyrir gistingu lægra og þá er morgunverðurinn ekki innifalinn en gestir geta sjálfir fengið sé te, kaffi og morgunkorn sér að kostnaðarlausu. Rekstur gistiheimilis er meir en fullt starf og segist Hulda að meðaltali hafa fengið fjögurra tíma svefn á nóttu í fyrrasumar enda séu sumrin ein allsherjar vertíð hjá fólki í ferðamennsku.
Fjós með sögu
Síðast var fjós í húsinu árið 1952 en síðan þá hefur ýmis starfsemi verið rekin þar, svo sem trésmíðaverkstæði og stálsmiðja. Á gistiheimilinu eru ýmsir munir frá gömlum tíma sem fundust þegar verið var að gera fjósið upp. Það má því segja að gistiheimilið minni svolítið á safn. „Fólkið í Höskuldarkoti var bæði í landbúnaði og sótti sjóinn. Hér fannst til dæmis tól til að draga báta upp á land, gamall sjóhattur og fleira. Sumt er hér á gistiheimilinu en annað hefur verið gefið á Byggðasafnið.“
Hvert herbergi gistiheimilisins hefur sitt þema. Til dæmis er eitt músikherbergi og segir Hulda það vinsælasta herberið. Þar inni eru mörg hljóðfæri sem flest eru í eigu Sögu Roman, dóttur Huldu. „Svo er líka gamall rokkur þar því maður rokkar í músíkherbergjum,“ segir Hulda og hlær. Annað herbergi heitir Fjósið og eru þar ýmsir munir sem minna á kýr. Eitt herbergjanna er nefnt eftir dóttur Huldu enda var það hennar afdrep áður en heimilinu var breytt í heimagistingu. Ferðamennirnir eru margir hverjir forvitnir um þá muni sem gistiheimilið prýða og margir taka myndir af því sem þar fyrir augu ber. Köttur Huldu, hún Gónlaug, er mannblendin og kann því vel við að búa innan um ferðamennina.
Hulda hefur mikið dálæti á klukkustrengjum og eru þeir nokkrir sem prýða gistiheimilið. VF-mynd/dagnyhulda
Góð meðmæli á Trip Advisor
Raven´s Bed and Breakfast er í 9. sæti þeirra gistiheimila á Íslandi sem hafa fengið hvað besta umsögn gesta á ferðavefnum Trip Advisor. Hulda segir það skipta miklu máli fyrir aðsóknina að eiga sæti á þeim lista. „Fólk fer gjarnan inn á Trip Advisor til að skoða svo það viti við hverju megi búast. Umsagnirnar eru líka góð leið til að halda manni á tánum og reyna alltaf að gera sitt besta.“ Aðsókn að heimagistingunni hennar hefur aukist samhliða þeim aukna fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim. Hulda segir það eiginlega með ólíkindum hve margir komi að skoða íslenska náttúru í janúar og febrúar. Í flestum tilvikum gista ferðamenn á Raven´s Bed and Breakfast fyrstu nóttina sína á Íslandi og þá síðustu. Aðrir dvelja lengur og nota heimagistingu sem áningu eftir dagsferðir og líka þegar verið er að skoða allt það sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða. Hulda segir alltaf gaman að hitta ferðamennina aftur rétt fyrir brottför. „Þá fæ ég að heyra ferðasöguna og fólk er búið að fá sér íslenska pylsu eða flottan fisk og jafnvel skoða einhverja af þeim stöðum sem ég hef mælt með.“
Nánari upplýsingar um gistihúsið má nálgast hér.
Vinsælt er hjá ferðamönnum að láta ferðaþreytuna líða úr sér í heita pottinum.
Tónlistarherbergið er eitt vinsælasta herbergið á Raven.
Í antíkherberginu eru gamlir fallegir munir og myndir.