Opnaði allar jólagjafir á aðfangadagsmorgun á meðan foreldrarnir sváfu
Berglind Bjarnadóttir starfar í öryggisstjórnstöð Isavia á Keflavíkurflugvelli. Eftirminnilegustu jólin hennar eru líklegast aðfangadagskvöld fyrir nokkrum árum þegar mamma hennar reyndi að svindla á henni og systkinum hennar með aðkeyptri brúnni lagköku í staðin fyrir að baka hana sjálf. „Við föttuðum það strax á fyrsta bita og það nánast brutust út slagsmál á heimilinu út af þessu hneyksli,“ segir Berglind í samtali við Víkurfréttir. Hún svarar nokkrum spurningum um jólin.
– Fyrstu jólaminningarnar?
„Jólin þegar ég var um þriggja, fjögurra ára og bróðir minn árinu yngri. Við vorum búin að opna allar jólagjafir á aðfangadagsmorgun eldsnemma, á meðan foreldrarnir sváfu. Mamma var ekkert glöð með að hún gat ekki séð hver gaf okkur hvað!“
– Jólahefðir hjá þér?
„Klukkan 18:00 þegar klukkurnar hringja inn jólin, vil alls ekki missa af því. Annars engar brjálaðar hefðir sem ég held í.“
– Ertu dugleg í eldhúsinu yfir hátíðarnar?
„Nei, er upp á aðra komin með það. Það er öllum í fjölskyldunni til happs að ég hvorki eldi né baki yfir höfuð.“
– Uppáhaldsjólamyndin?
„Christmas Vacation með Chevy Chase.“
– Uppáhaldsjólatónlistin?
„Það snjóar með Sigga Guðmunds er uppáhaldsjólalagið mitt.“
– Hvar verslarðu jólagjafirnar?
„Allt verslað á netinu þetta árið í hinum ýmsu netverslunum.“
– Gefurðu margar jólagjafir?
„Nei, ekkert svo. Slepp ágætlega með það.“
– Ertu vanaföst um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
„Nei, ég er ekki vanaföst. Ég er alin upp við að jólin eru allskonar og það hefur alltaf fylgt mér og mínum börnum eftir að ég fór að búa sjálf.“
– Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Vá! Svo margar, get ekki valið eina.“
– Hvað langar þig í jólagjöf?
„Það sem dóttir mín ætlar (skal) gefa mér.“
– Hvað er í matinn á aðfangadag?
„Hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi.“
– Eftirminnilegustu jólin?
„Líklegast aðfangadagskvöld fyrir nokkrum árum þegar mamma reyndi að svindla á okkur systkinum með aðkeyptri brúnni lagköku í staðin fyrir að baka hana sjálf. Við föttuðum það strax á fyrsta bita og það nánast brutust út slagsmál á heimilinu út af þessu hneyksli.“