Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Opna Kross-saum við Smiðjuvelli
    Þau eru í fataflokkuninni og Rauða kross hundurinn er með á myndinni.
  • Opna Kross-saum við Smiðjuvelli
Fimmtudagur 1. maí 2014 kl. 09:15

Opna Kross-saum við Smiðjuvelli

– og flokka fatnað til fjáröflunar

Rauði krossinn á Suðurnesjum hefur opnað vinnustofuna Kross-saum í húsnæði deildarinnar á Smiðjuvöllum 8 Reykjanesbæ. Markmið verkefnisins er að nýta efni og gera við fatnað sem ýmist eru gefin í fatagámana eða sem framlög frá fyrirtækjum. Má þar nefna meðal annars Pfaff, Vouge, Tölvulistann í Reykjanesbæ og fleiri sem hafa lagt þessu verkefni lið.
 
Á vinnustofunni sauma sjálfboðaliðar ýmislegt eins og til dæmis: hrísgrjónabakstra, vöggusett, dúkkusett, svuntur og fleira. Boðið er upp á leiðsögn í saumaskap en hópurinn kemur saman einu sinni til tvisvar í viku.
 
Afraksturinn er síðan seldur í Rauðakrossbúðinni á Smiðjuvöllum sem opnaði í september síðastliðinn. Hún er opin á fimmtudögum og föstudögum frá 13 – 17:15. Eins verður opið einn laugardag í mánuði, næst laugardaginn 12. apríl.
 
Mikið af góðum og fallegum fatnaði er seldur þar á sanngjörnu verði. Verslunin er rekin í fjáröflunarskyni sem þýðir að þeir sem versla eru í rauninni að gefa.
 
Fataflokkun er einnig í húsnæðinu en þar flokka sjálfboðaliðar allan fatnað sem berst í fatagámana fyrir utan. Fatnaðurinn er ýmist flokkaður í verslunina eða sendur til Reykjavíkur til frekari flokkunar. Þar er til dæmis hlýr fatnaður sendur áfram til Hvíta Rússlands. Þess má geta að Rauði krossinn þiggur allan fatnað og efni í hvaða ásigkomulagi sem er því allt eru þetta verðmæti.  Mikil vakning hefur orðið í endurvinnslu og gífurlegt magn berst í fatagámana og sendir Rauði krossinn á Suðurnesjum sínar bestu þakkir fyrir.
 
Starfsemin er öll byggð á sjálfboðaliðum sem gefa vinnu sína með bros á vör.
 
Sjálfboðaliðar Rauða krossins í fatamarkaði samtakanna við Smiðjuvelli í Keflavík.

Þessar sátu við saumavélarnar í Kross-saumi þegar ljósmyndari VF var á svæðinu.

Sýnishorn af því sem Kross-saumur framleiðir.

Svuntur úr notuðum skyrtum eru meðal þess sem framleitt er á staðnum.
 
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024