Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Opinn dagur á Ásbrú í dag
Laugardagur 30. apríl 2011 kl. 10:00

Opinn dagur á Ásbrú í dag

Hinn árlegi Opni dagur á Ásbrú verður haldinn í fjórða sinn í dag,  laugardaginn 30. apríl,  frá kl 12.00 til 16.00. Í fyrra mættu tæplega 20 þúsund manns og skemmtu sér konunglega við frábæra dagskrá dagsins. Dagskráin verður engu síðri í ár og nokkuð ljóst að allur aldur ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.

Nemendur og starfsfólk Keilis mun kynna fjölbreytt námsframboð í húsnæði sínu s.s. nám í Háskólabrú, Heilsu- og uppeldisskólanum, Orku- og tækniskólanum og Flugakademíunni. Nemendaíbúðir verða kynntar og til sýnis almenningi.

Í Íþróttahúsi er fjölbreytt dagskrá þar sem ÍAK nemar bjóða upp á örfyrirlestra tengda þjálfun og heilsu, þrautabraut fyrir hrausta krakka verður sett upp ásamt opnum áskorunum þar sem almenningi gefst kostur á að taka þátt í skotkeppnum, Keiliskastaranum og að takast á við Sterkasta manninn á Íslandi, Stefán Sölva, í sjómanni. Verðlaun í boði.

Fyrir utan skólann verða stærsti slökkvibíll landsins, körfubíll og sjúkraflutningabíll til sýnis. Þyrla Landhelgisgæslunnar mætir á svæðið kl. 14.00 og tekur æfingu. Að henni lokinni mun hún svo lenda og verður þyrlan til sýnis almenningi. Þyrla Vesturflugs býður uppá þyrluflug gegn vægu gjaldi.

Fyrirtæki á Ásbrú munu einnig kynna starfsemi sína en þar er fjölbreytt flóra hinna ýmsu þjónustufyrirtækja og sprotafyrirtækja. Nokkur fyrirtæki munu einnig vera með opið hús hjá sér og bjóða nokkur upp á tilboð í tilefni dagsins.

Skemmtun fyrir börnin verður á sínum stað þar sem Pollapönk ásamt Bjarna töframanni fer fremst í flokki. Töggukast í boði Nóa Siríus verður úr kranabíl slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja. Súkkulaðimolar verða í leyni á víð og dreif um svæðið fyrir almenning að finna og gæða sér á. Andlitsmálning og blöðruskúlptúrar verða á sínum stað og um að gera að mæta tímanlega í það. Grillaðir verða sykurpúðar á metangrilli í boði Bónus. Þrautabraut fyrir hrausta krakka verður í Íþróttahúsinu ásamt fjöldi annarra skemmtilegra viðburða allan daginn.


Sér dagskrá verður hjá Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú
Þar verða opnir örfyrirlestrar í boði Trompsins, nýs frumkvöðlanáms hjá Keili með áherslu á verkefna- og viðburðastjórnun og fara þeir fram í glæsilegri aðstöðu setursins í Eldey. Einnig munu nokkur frumkvöðlafyrirtæki með aðsetur í húsinu kynna starfsemi sína.

Akstursíþróttafélag Suðurnesja heldur Leikdag sinn á Opnum degi með glæsilegri dagskrá allan daginn. Dagskrá verður við félagsheimili AÍFS þar sem starfsemin verður kynnt, bílasýning, fjórhjólarallý og fjórhjólaþrautir, og heitt verður á könnunni. Ökuleiknisþrautin AutoX sem hefur verið gríðarlega vinsæl í Bretlandi verður í boði fyrir almenning til að spreyta sig á á plani Atlantic Studios í boði AÍFS. Tekið er þátt á eigin bílum, tímataka er í brautinni og verðlaun verða veitt í lok leikdags.

Innileikjagarður fyrir börnin verður opinn, fyrirtækin á Ásbrú verða með tilboð og margt fleira í boði þennan Opna dag á Ásbrú frá kl. 12.00 – 16.00.

Ítarlegri dagskrá á asbru.is og á facebook/asbru.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024