Opinn dagur á Ásbrú á morgun
Opni dagurinn á Ásbrú verður haldinn hátíðlegur á morgun, sumardaginn fyrsta. Eins og undanfarin ár verður dagurinn með yfirbragði karnivals en svoleiðis hátíðir voru mjög vinsælar þegar varnarliðið réð ríkjum þar sem nú er Ásbrú.
Undanfarnar vikur hafa þau Diljá Ámundadóttir og Unnsteinn Jóhannsson, sem eru verkefnastjórar Opna dagsins, unnið að því að setja saman dagskrána og fá skemmtikrafta og annað fólk sem þarf til að skapa góða karnival-stemmningu.
Dagskrá Opna dagsins verður með svipuðu sniði og í fyrra en þá heppnaðist dagurinn einstaklega vel og þúsundir lögðu leið sína á Ásbrú til að njóta skemmtunar í kvikmyndaverinu Atlantic Studios eða til að kynna sér nám í Keili. Í ár er ætlunin að skerpa enn frekar á karnival-stemmningunni og skapa upplifun eins og í alvöru amerískri sveitaferð.
Eins og í fyrra verður alvöru draugahús og leikir ýmiss konar. Fornbílaklúbburinn hefur boðað komu sína og þyrla Landhelgisgæslunnar ætlar einnig að heiðra gesti með nærveru sinni. Þá verður Norðurflug einnig á staðnum og ætlar að bjóða upp á útsýnisflug með þyrlu gegn gjaldi ef aðstæður leyfa.
Í Atlantic Studios verða margir básar og ýmiss konar kynningar. Íþróttafélögin í Reykjanesbæ verða með ýmislegt í boði og á staðnum verður hægt að fá veitingar, m.a. á ameríska vísu. Þá verður söngur og fjör þar sem Ingó Veðurguð og Ávaxtakarfan koma m.a. við sögu.
Dagskráin verður ekki bara í Atlantic Studios því í Keili verður kynning á námi og þar mun tónlistarmaðurinn Snorri Helgason spila. Í Sporthúsinu verða kynningar í tilefni dagsins og opnir tímar. Þar verða einnig kynningar á fæðubótarefnum. Í Eldey verður opið hús þar sem fyrirtækin þar kynna sína starfsemi og Heklan kynnir sitt starf.
Auk fornbíla á útisvæði þá verða einnig tæki frá lögreglu, slökkviliði og björgunarsveitum. Til dæmis verður stærsti slökkvibíll landsins á staðnum og þá má búast við mótorhjólum af öllum stærðum og gerðum.
Suðurnesjamenn ættu ekki að láta karnival-stemmninguna á sumardaginn fyrsta á Ásbrú fram hjá sér fara en hátíðarhöldin standa yfir frá kl. 13-16 á morgun.