Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Opin æfing hjá Kvennakór Suðurnesja
Föstudagur 7. september 2012 kl. 09:36

Opin æfing hjá Kvennakór Suðurnesja

Þegar sumri lýkur fara farfuglarnir að hefja sig til flugs og það sama má segja um söngfuglana í Kvennakór Suðurnesja. Kórkonur eru reyndar aðeins búnar að hita upp fyrir veturinn með söng á Ljósanótt en kórinn tók þátt í tónlistardagskrá í Duushúsum.  Kvennakór Suðurnesja hefur tekið þátt í hátíðinni frá upphafi enda er þetta frábær vettvangur fyrir menningarstarf og skemmtileg leið til að kveðja sumarið og hefja vetrarstarfið. Kvennakórinn tók líka þátt í Sandgerðisdögum en þar sáu kórkonur um kósýkvöld kvenna sem var haldið í sundlauginni í Sandgerði og tókst það frábærlega. Góð mæting var enda flott dagskrá í boði. Bláa lónið var með kynningu á vörum sínum, lesið var úr bókum frá bókaútgáfunni Lesstofunni, glæsilegt happdrætti með flottum vinningum, söngur og tískusýning þar sem kórkonur brugðu sér í hlutverk fyrirsætna og sýndu föt frá hönnuðum af Suðurnesjum.

Vetrarstarfið hefst síðan af fullum krafti mánudaginn 10. september en þá verður haldin opin æfing í Listasmiðjunni, Keilisbraut 773 á Ásbrú en þar er kórinn með æfingaaðstöðu. Kvennakórinn hvetur allar konur sem hafa áhuga á söng til að kíkja við því þó það séu margar skemmtilegar og söngelskar konur í kórnum er nóg pláss fyrir fleiri. Kórkonur ætla líka að slá upp Pálínuboði og verður eflaust ýmislegt girnilegt á borðum. Æfingin hefst kl. 20.

Kvennakór Suðurnesja er elsti starfandi kvennakór á landinu en hann var stofnaður 22. febrúar 1968 og verður því 45 ára í vetur. Dagskrá vetrarins er ekki fullmótuð en gert er ráð fyrir að kórinn komi fram á tónleikum fyrir jólin auk þess sem haldnir verða vortónleikar. Í febrúar fara kórkonur í æfingabúðir í Skálholti. Ýmislegt fleira skemmtilegt er á döfinni sem verður nánar kynnt síðar.

Kórinn æfir á miðvikudögum kl. 20 og raddæfingar eru á mánudögum á sama tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024