Opið hús í Keflavíkurkirkju
Opið hús verður í Keflavíkurkirkju, sunnudaginn 4. mars frá kl. 11:00 til 14:00. Dagskráin hefst með guðsþjónustu þar sem báðir prestarnir þjóna, kórar kirkjunnar syngja.
Barnasamvera verður að helgihaldinu loknu og verður gestum boðið í Kirkjulund þar sem fyrstu drög að stefnumótun safnaðarins verða kynnt og fólki gefinn kostur á að deila með okkur skoðunum sínum á því hvernig það vill sjá safnaðarstarfið þróast í kirkjunni.
Einnig verður horft til kirkjubyggingarinnar og umhverfis hennar, meðal annars fyrstu drög að nýjum innréttingum í kirkjuskipi. Hugmyndir fermingarbarna að framtíðarstefnu kirkjunnar verða sýndar og þá verða á veggjum gamlar og fágætar ljósmyndir úr kirkjustarfinu. Veitingar verða í boði safnaðarins og kórar kirkjunnar syngja fyrir gesti.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson