Opið hús hjá Þorbirni í dag– nýtt söguskilti vígt
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík fagnar 80 ára afmæli sínu um helgina með opnu húsi og vígslu söguskiltis þar sem rakin er saga skipsstranda við Grindavíkurstrendur. Þá verður farið í sögugöngu um Nesið þar sem endurvígð vera átta skilti, hvert við það strand sem lýst er.
Starfsemi björgunasveitar er gríðarlega mikilvæg í sjávarplássi eins og Grindvík. Til dæmis hefur innsiglingin þar löngum þótt eins sú erfiðasta á landinu og ófáum bátum hefur hlekkst á við Nesið. Slysavarnardeildin Þorbjörn og björgunarsveitin Þorbjörn, sem stofnuð var innan deildarinnar 1947, hafa samtals bjargað 232 sjómönnum í 22 sjóslysum þar sem 47 hafa farist á þessum áttatíu árum sem liðin eru frá stofnun deildarinnar.
Í dag, laugardaginn 6. nóvember klukkan 11:00, verður safnast saman við söguskiltið í Hópsnesinu í grennd við rústirnar á austanverðu Nesinu. Þar verður vígt nýtt stórt skilti er segir sögu skipsstranda frá Gerðistöngum austur að Selatöngum í tilefni af 80 ára afmæli Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns, sem stofnuð var 2. nóvember 1930. Að vígslu lokinni verður gengið um Nesið þar sem endurvígð verða 8 skilti, hvert við það strand, sem lýst er. Leiðsögumaður er Gunnar Tómasson, fyrrum formaður bæði slysavarnadeildarinnar og björgunarsveitarinnar en Gunnar er hafsjór af fróðleik um þessa sögu. Gangan endar svo í húsi björgunarsveitarinnar í Seljabót 10 þar sem hefst opið hús. Þátttakendum göngunnar verður boðið upp á akstur á eftir til að sækja bíla sem skildir verða eftir austur í Nesi.
Slysavarnadeildin Þórkatla sér um veitingar fyrir alla fjölskylduna í Seljabót. Öll tæki og áhöld sveitarinnar verða til sýnis og gefst gestum tækifæri á að skoða þau og þá einkum gömul tæki svo sem línubyssuna, sem notuð var fyrst er Slysvarnadeildin bjargaði 38 manna áhöfn af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði við Hraun 24. mars 1931. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem línubyssa var notuð við björgunaraðgerðir í sjávarháska á Íslandi.