Mannlíf

Óperan eins og eiturlyf
Úr Rakaranum frá Sevillia. Jóhann Smári í stuði.
Laugardagur 1. október 2016 kl. 06:00

Óperan eins og eiturlyf

- segir Jóhann Smári Sævarsson, söngvarinn með djúpu og dökku röddina

Jóhann Smári Sævarsson óperusöngvari verður 50 ára núna á sunnudaginn, 2. október. Til að halda upp á tímamótin verður slegið upp einsöngstónleikum í Bergi í Hljómahöll á afmælisdaginn frá klukkan 18:00 til 19:30. Jóhann Smári hefur fengið til samstarfs við sig Helgu Bryndísi Magnúsdóttur, sem er einn okkar fremsti píanóleikari í dag.
 

Víkurfréttir heyrðu í Jóhanni Smára í vikunni þegar hann átti stund á milli stríða en hann er með mörg járn í eldinum þessa dagana við kennslu og söngstjórn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fékk ekki að syngja í skátunum og KFUM


„Söngáhuginn vaknaði í gegnum rokkið. Ég fékk hins vegar aldrei að syngja í rokkhljómsveit því ég er með svo djúpa rödd. Ég fékk ekki einu sinni að syngja með í skátunum og KFUM. Það var fljótlega farið að banka í mig því röddin var svo djúp. Áhuginn fyrir því að syngja sjálfur vaknaði ekki fyrr en ég fór í karlakórinn. Ástæða þess að ég fór í karlakórinn var sú að mamma dró mig með sér á óperu. Það var búið að kaupa miðana en pabbi heitinn komst ekki. Á óperutónleikunum upplifði ég það að þar er það sem menn eru að reyna að skapa í rokkinu. Við erum alltaf að reyna að gera flottari og flóknari lög með flottari sýningum og ljósum. Þarna sat ég og óperan byrjaði og tjaldið opnaðist. Þar blasti við stórkostleg leikmynd og allir í búningum og hljómsveit sem spilaði þétt saman, eins og við vorum að reyna að gera í rokkinu. Þarna heyrði ég líka í fyrsta skipti bassasöngvara syngja eins og mér leið með mína rödd. Þá fór ég að hugsa að kannski gæti ég þetta,“ segir Jóhann Smári þegar hann er beðinn um að rifja upp hvernig söngáhuginn vaknaði hjá honum. Í framhaldinu fór hann að læra söng og skellti sér í Karlakór Keflavíkur.


Hljómaði eins og mótorhjól


Á þessum árum var Jóhann Smári starfandi í prentsmiðjunni Grágás þar sem hann vann meðal annars við umbrot Víkurfrétta og ýmsa aðra prentsmiðjuvinnu sem meðal annars fór fram í myrkraherbergi. Jóhann Smári hitaði oft upp fyrir söngæfingar í myrkraherberginu. Í eitt skiptið þegar hann kom út úr herberginu stóðu samstarfsmenn hans og horfðu út um glugga. Einn þeirra, Stefán Jónsson prentari, segir: „Hvar er hann?“ og Jóhann Smári spyr: „Hvað er í gangi?“ Stefán bætir við: „Það er einhver andskoti að reyna að koma mótorhjóli í gang og er ekkert að gefast upp.“ Hljóðin komu hins vegar úr myrkraherberginu þar sem Jóhann Smári var við æfingar. „Ég var ekkert að segja þeim að ég átti hljóðin,“ segir hann og hlær.


Á þessum tímapunkti stóð Jóhann Smári á tímamótum. Hann keyrði til Reykjavíkur á söngæfingar. Söngkennarinn sagði að ef hann ætlaði að gera sönginn að einhverju alvöru þá yrði hann að hætta í vinnu og helga sig alfarið söngnáminu. Á sama tíma stóðu yfir breytingar í prentsmiðjunni. Verið var að tölvuvæða blaðaumbrot og valið stóð því um að setjast á skólabekk og læra umbrot í tölvu eða fara á fullt í sönginn. Jóhann Smári valdi söngnámið. Tveimur árum síðar var hann kominn til London að syngja og í framhaldinu út um allan heim.


Gafst tvisvar upp á ferðatöskulífinu


„Þetta er ferðatöskulíf sem ég hef tvívegis gefist upp á. Ferillinn hélt ekki dampi hjá mér því ég ákvað í tvígang að fara heim. Fyrst eftir þrjú strembin ár í Kölnaróperunni. Þá fór ég heim ásamt þáverandi konu minni og við settumst að á Akureyri og áttum góð ár þar.


Svo kemur alltaf upp þessi þorsti því óperulífið er nánast eins og eiturlyf. Þegar þú ert búinn að kynnast þessu, vera á sviðinu og syngja þessa stórkostlegu músík með hljómsveit í stórum sal. Maður verður ekkert ríkur af þessu. Ef þú ætlar virkilega að græða á söng þá er vissara að þú sért tenór. Þetta er enginn dans á rósum. Ferðatöskulífið er þannig að síðast þegar ég hætti þá kom ég heim til að taka þátt í góðærinu og keypti mér hús og bíl um haustið 2008, korter í kreppu. Árið áður hafði ég hitt börnin mín samanlagt í einn og hálfan mánuð,“ segir Jóhann Smári. Hann segist þó alveg til í að skjótast út fái hann góð verkefni. Síðast árið 2013 fór hann til að mynda í verkefni í Glasgow í þrjá mánuði og óperan þar borgaði miða fyrir hann heim til Íslands tvisvar á því tímabili til að hitta fjölskylduna.

„Ég á pólskan vin sem er í svo miklum verkefnum að hann hefur ekki enn hitt barnið sitt augliti til auglitis sem hann eignaðist með konu sinni í fyrra. Ég er svo mikill fjölskyldumaður að ég myndi ekki þola svona lengi.“


Jóhann Smári er nú að verða fimmtugur og þá fer að fækka mjög hlutverkum sem óperusöngvarar geta tekið að sér. Hann segist þó vera heppinn að vera með „dökka“ rödd því hún gefi honum tækifæri til að syngja vondu karlana, presta og kónga, svo eitthvað sé nefnt. Ungu elskhugarnir eru hins vegar ekki mögulegir lengur, kominn á þennan aldur.


Söngkennsla og stjórnun


Núna er Jóhann Smári kominn á fulla ferð í vinnu hér heima. Hann er söngkennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Þá er hann nýráðinn stjórnandi við Karlakór Keflavíkur og hefur undanfarið einnig verið stjórnandi hjá Söngsveitinni Víkingum. Fjölmargir tónleikar eru framundan og þá er Jóhann Smári að vinna að uppsetningu á Hollendingnum fljúgandi.


Einsöngstónleikar á afmælisdaginn


Í tilefni af því að Jóhann Smári verður 50 ára sunnudaginn 2. október heldur hann, þann dag, að því tilefni tónleika með Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara, í Bergi í Hljómahöll. Á tónleikunum flytja þau þekkt íslensk einsöngslög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Karl Ó. Runólfsson, Árna Thorsteinsson, Gamansöngva eftir Atla Heimi Sveinsson, Don Quichotte á Dulcinée eftir franska tónskáldið Maurice Ravel og hápunktur tónleikana er Kvæði eftir Sigurð Sævarsson, fjögur lög við ljóð Snorra Hjartarsonar, sem verða flutt í fyrsta sinn með píanóundirleik. Tónleikarnir enda á óperuaríum úr Lustige Weiber von Wintsor og Toscu. Tónleikarnir verða teknir upp fyrir geisladisk og útvarp.



Commendatore úr Don Giovanni í Skosku Óperunni í Glasgow.