Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 13. júlí 2001 kl. 10:51

Ópera í Reykjanesbæ

Óperufélagið Norðuróp stendur að uppsetningu ópera í Dráttarbrautinni í Keflavík. Óperurnar sem settar verða upp eru Gianni Schicchi eftir Giacomo Puccini og Z-ástarsaga eftir Sigurð Sævarsson úr Keflavík auk þess verður sett upp Sálumessa (Requiem) eftir Sigurð Sævarsson.

Norðuróp
Norðuróp er óperufélag sem stofnað var á Akureyri sumarið 2000. Félagið hefur sett upp eina óperusýningu en það var barnaóperan Sæmi sirkusslanga eftir Malcom Fox sem sýnd var á Akureyri síðasta sumar. Sú sýning verður líklega tekin upp í vetur og sýnd á suðvesturhorni landsins. Félagið hefur að undanförnu leitað eftir styrkjum frá fyrirtækjum til að setja upp sýningarnar í Dráttarbrautinni. Helstu söngvarar í sýningunum sem settar verða upp hér eru: Jóhann Smári Sævarsson, Garðar Thor Cortes, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Elín Halldórsdóttir, Jóhanna Linnet, Davíð Ólafsson, Dagný Jónsdóttir og Hjördís Einarsdóttir en 18 söngvarar taka þátt í sýningunum. Félagið er nú í samningaviðræðum við erlenda aðila um uppsetningu á óperunni Don Kíkóte eftir Masanet sumarið 2002. Einnig er gert ráð fyrir að félagið verði með reglulega starfsemi í vetur.

Gianni Schicchi
Óperan Gianni Schicchi verður sýnd 10., 11. og 12. ágúst í Dráttarbrautinni. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson, leikari en hann er frá Keflavík. Alls 15 söngvarar taka þátt í sýningunni sem tekur u.þ.b. 50 mínútur. óhann Smári Sævarsson syngur titilhlutverkið en Garðar thor Cortes syngur aðal tenórinn í sýningunni og Elín Halldórsdóttir syngur hlutverk dóttur Gianni og syngur m.a. frægustu aríuna í verkinu: O, mio babbino caro. Hljómsveitarstjóri að sýningunni er Garðar Cortes. Hljómsveitaskipan er með öðru sniði en gengur og gerist því hljómsveitin er skipuð sex hljómborðum. Sigurður Sævarsson sá um að skrifa verkið upp fyrir sex hljómborð en upphaflega er gert ráð fyrir 50 manna hljómsveit. Ljósamaður frá Leikfélagi Íslands hefur verið fenginn til að hanna lýsingu. Jóhann Smári sér um hönnun leikmyndar í samvinnu við Michael Bachman leikmyndahönnuð við óperuna í Saarbrücken. Búningar verða fengnir að láni frá ýmsum aðilum. Verkið verður flutt á íslensku en um þýðingu sá Jóhann Smári.

Requiem
Requiem er sálumessa eftir Sigurð Sævarsson. Verkið var lokaverkefni Sigurðar frá tónsmíðadeild Tónlistarháskólans í Boston. Leikstjóri er bróðir Sigurðar, Jóhann Smári Sævarsson en hann fer einnig með annað einsöngsatriðið í sálumessunni. Verkið er skrifað fyrir kór og tvo einsöngvara og fer Jóhanna Linnet með hitt einsöngsatriðið. Jóhann Smára til aðstoðar við sviðsetningu er Helga Vala Helgadóttir. Garðar Cortes fer einnig með hljómsveitarstjórnun í Sálumessunni en hún verður sýnd á sama tíma og Gianni Schicchi. Sex manna hljómsveit verður notuð við uppsetningu Sálumessunnar og spila allir á hljómborð.

Z-ástarsaga
Þriðja og síðasta stykkið sem Norðuróð setur upp í sumar er óperan Z-ástarsaga sem verður frumsýnd á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Óperan er eftir Sigurð Sævarsson og er skrifuð eftir samnefndri skáldsögu Vigdísar Grímsdóttur. Óperan gerist á einni kvöldstund og fjallar um Önnu sem hefur í huga að fremja sjálfsmorð. Ástkona Önnu, Zeta veit um áform Önnu en segir ekkert við systur hennar Arnþrúði. Helga Vala Helgadóttir, leikari og dóttir Helga Skúlasonar fer með leikstjórn verksins. Jóhanna Linnet og Ingveldur Ýr Jónsdóttir fara með hlutverk Önnu og Zetu og Bryndís Jónsdóttir fer með hlutverk systurinnar. Við fluttning verksins verða notuð fjögur hljómborð.

Sigurður Sævarsson
Sigurður hefur stundað nám í söng við hina ýmsu skóla en byrjaði í söngnámi við Tónlistarskólann í Keflavík undir leiðsögn Árna Sighvatssonar. Núna síðast nam hann við Boston University þar sem aðalkennari hans var William Sharp. Á öðru ári hóf Sigurður nám við tónsmíðadeild skólans og lauk námi árið 1997 með masters-prófi í söng og tónsmíðum. Nýjasta verk Sigurðar er óperan Z-ástarsaga sem frumflutt verður á Ljósanótt 1. septembet nk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024