Óp, álfar og tröll í Duushúsum
Tónlistarfélag Reykjanesbæjar og nágrennis heldur hádegis-jólatónleika föstudaginn 11. desember kl.12:15. í Duushúsum. Fram koma söngvarar úr Óp-hópnum, sem hefur verið með hádegistónleika í Íslensku óperunni undanfarna þrjá mánuði. Hópurinn var stofnaður til að koma efnilegum söngvurum á framfæri og eru tveir söngvaranna frá Reykjanesbæ, þau Bylgja Dís Gunnarsdóttir sópran og Rúnar Guðmundsson tenór. Flutt verða í bland jólalög og samsöngsatriði úr óperum. Undirleikari Óp-hópsins er Antonia Hevesí. Tónleikarnir verða um 40 mínútur í flutningi og er miðaverð 1.000.kr.
Þá má geta þess að þann 3. janúar verða haldnir tónleikarnir Álfar og tröll í Duushúsum kl. 17. Þar verða sagðar sögur og fluttir söngvar tengt þjóðssögum og þjóðtrú um jól og áramót.
Sönghópurinn Orfeus og hljómsveitin Talenturnar sjá um tónlistarflutning. Útsetningar eru eftir Arnór B. Vilbergsson og handritið er eftir Bylgju Dís Gunnarsdóttur og Henning Emil Magnússon. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Suðurnesja og er unnið í samstarfi við Tónlistarfélag Reykjanesbæjar.
---
Bylgja Dís Gunnarsdóttir er á meðal þeirra sem koma fram með Óp-hópnum. VFmynd/elg.