Ómissandi hefð að takast á í íþróttahúsinu á Þorláksmessu
Eva Rut Vilhjálmsdóttir býr í Garðinum og er með risastórt Víðishjarta. Hún er stuðningsmaður Víðis númer eitt. Eva er starfsmaður í Íþróttamiðstöðinni í Garði, knattspyrnuþjálfari og þar að auki gjaldkeri Knattspyrnufélagsins Víðis.
Aðventan í mínum huga … er dásamlegur tími þrátt fyrir dimma daga, þá lýsa jólaljósin upp bæinn sem gefur manni gleði í hjarta. Samverustundir með fjölskyldunni og vinum er ómetanlegar og þær allra bestu. Kósý spilakvöld, bakstur með börnunum en hún Heba Lind mín er einstaklega iðinn við jólabaksturinn, Reykjavíkurferð með vinkonunum, tónleikar, hangikjöts- og skötuveisla Víðis ásamt undirbúningi Þorrablóts Suðurnesjamanna einkennir dáldið aðventuna hjá mér, annars reynum við að hafa hana eins afslappaða og hægt er (haha).
Ég skreyti … hóflega mikið en byrja yfirleitt um miðjan nóvember að setja ljós í gluggana til að lýsa upp skammdegið, kveikja á kertum og dreifa fallegu jólaskrauti víða um heimilið.
Jólahlaðborðið … klikkaði í ár en við höfum síðustu 11 ár farið á jólahlaðborð víðsvegar um landið.
Grænar baunir eru … ofmetnar, borða þær sennilega bara með hangikjötinu á jólunum.
Laufabrauð … með smjöri er ómissandi með hangikjötinu.
Jólaskraut fer á húsið mitt … í byrjun desember eða í kringum fyrsta í aðventu.
Jólatréð skreytum við … börnin viku fyrir jól eða í kringum 20. desember.
Jólastemmningin … eru kósý stundir í faðmi fjölskyldunnar, skemmtilegar hefðir, góður matur og gleði barnanna.
Hangikjötið er … möst um jólin og í algjöru uppáhaldi hjá Jóni Grétari syni mínum.
Malt og appelsín … er allt of gott.
Jólasveinarnir eru … frábærir og gleðja unga sem aldna. Stúfur er þó minn uppáhalds.
Ég kaupi alltaf jólagjöfina … handa Gumma mínum á Þorláksmessu nema í ár þá hef ég fjárfest í Krónukorti og samlokugrilli handa honum.
Á Þorláksmessu fer ég … með systkinum mínum, börnum, mökum, vinum og ættingjum í íþróttahúsið i Garði og þar hefjum við daginn. Við leikum við börnin og tökumst á í ýmsum kappleikjum. Þetta er ein uppáhalds hefðin mín og finnst mér ómissandi hluti af jólaundirbúningnum. Hópurinn er alltaf að stækka og mig minnir að fjöldinn hafi verið um það bil 50 í fyrra. Þessi hefð byrjaði fyrir um það bil 10 árum en þá þurftum við að rýma Akurhúsin fyrir fjölda barna fyrir árlega skötuveislu sem mamma og pabbi héldu fyrir ættingja og vini. Þá fórum við með öll börnin í góða hreyfingu og síðan beint í gómsæta skötuna. Á seinni árum höfum við haldið okkur við hreyfinguna og stækkað hópinn enn meir.
Aðfangadagur er … fallegur dagur þar sem við byrjum daginn á að fara í kirkjugarðinn og kíkja á leiðin hjá látnum ástvinum, skutlumst með pakkana og síðustu kortin í hús. Eftir það er bara rólegheit og biðin eftir að klukkan slái 18:00. Við fáum tengdaforeldra mína í mat og eigum notalega kvöldstund.
Um áramótin ætla ég … að vera heima í fyrsta skiptið í langan tíma en nú fæ ég þann heiður að fá stórfjölskylduna mína og ættingja til okkar. Það hentar vel að búa við hliðina á flottustu brennu Suðurnesja. Við höfum verið hjá Brynju systur og fjölskyldu fram að þessu en nú tökum við við keflinu, njótum samverunnar, borðum kalkún, förum á brennuna, horfum á skaupið og endum á góðu spili.